Hryðjuverk í almennum hegningarlögum

Gæsluvarðhald vegna vopnaframleiðslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði á upplýsingafundi lögreglu í dag að rannsókn lögreglu byggi á lagagrein 100.a í almennum hegningarlögum. Sú grein snýr að hryðjuverkum. Í henni er skilgreint hvaða brot geti fallið undir hryðjuverk og að allt að ævilangt fangelsi liggi við slíkum brotum.

Fyrir hryðjuverk skal refsa með allt að ævilöngu fangelsi hverjum sem fremur eitt eða fleiri af eftirtöldum brotum í þeim tilgangi að valda almenningi verulegum ótta eða þvinga með ólögmætum hætti íslensk eða erlend stjórnvöld eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert eða í því skyni að veikja eða skaða stjórnskipun eða stjórnmálalegar, efnahagslegar eða þjóðfélagslegar undirstöður ríkis eða alþjóðastofnunar:

segir í lagagreininni. Þar eru einnig tilgreindir sex brotaflokkar sem teljast hryðjuverk ef brotin eru framin í þeim tilgangi.

  1. manndráp skv. 211. gr.,
  2. líkamsárás skv. 218. gr.,
  3. frelsissviptingu skv. 226. gr.,
  4. raskar umferðaröryggi skv. 1. mgr. 168. gr., truflar rekstur almennra samgöngutækja o.fl. skv. 1. mgr. 176. gr. eða veldur stórfelldum eignaspjöllum skv. 2. mgr. 257. gr. og þessi brot eru framin á þann hátt að mannslífum sé stefnt í hættu eða valdið miklu fjárhagslegu tjóni,
  5. flugrán skv. 2. mgr. 165. gr. eða veitist að mönnum sem staddir eru í flughöfn ætlaðri alþjóðlegri flugumferð skv. 3. mgr. 165. gr.,
  6. brennu skv. 2. mgr. 164. gr., veldur sprengingu, útbreiðslu skaðlegra lofttegunda, vatnsflóði, skipreika, járnbrautar-, bifreiðar- eða loftfarsslysi eða óförum annarra slíkra farar- eða flutningatækja skv. 1. mgr. 165. gr., veldur almennum skorti á drykkjarvatni eða setur skaðleg efni í vatnsból eða vatnsleiðslur skv. 1. mgr. 170. gr. eða lætur eitruð eða önnur hættuleg efni í muni, sem ætlaðir eru til sölu eða almennrar notkunar, skv. 1. mgr. 171. gr.

Það er ekki aðeins svo að allt að ævilangt fangelsi liggi við því að fremja hryðjuverk. Jafn löng refsing liggur við hótun um hryðjuverk.