Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Handan einskærrar framsetningar á afstöðulist

Mynd: Documenta / Documenta

Handan einskærrar framsetningar á afstöðulist

22.09.2022 - 13:00

Höfundar

Samtímalistahátíðin documenta, kennd við borgina Kassel í Þýskalandi, hefur verið haldin frá 1955. Marteinn Sindri Jónsson, doktorsnemi í list- og stjórnmálaheimspeki, hefur dvalið í Kassel, sótt sýningar og upplifað styrinn sem staðið hefur um hátíðina þetta árið.

Marteinn Sindri Jónsson skrifar:

Documenta, ein stærsta samtímalistahátíð í heimi, fer fram í Kassel í Þýskalandi dagana 18. júní til 25. september á þessu ári undir sýningarstjórn listahópsins Ruangrupa frá Djakarta, höfuðborg Indónesíu. Er það í fyrsta sinn í sögu hátíðarinnar sem hópur starfandi listamanna tekur að sér sýningarstjórnina. Segja má að tilgangur sýningarinnar að þessu sinni sé að koma á laggirnar því sem sýningarstjórarnir nefna ekosistem eða vistkerfi fjölþjóðlegs hóps listahópa og kollektíva. Þess skal geta að hugtakið sem um ræðir er umritað indónesískt tökuorð, ritað ekosistem, en ekki enska hugtakið ecosystem. Raunar er mikið af orðaforða sýningarinnar fenginn úr indónesísku. Til dæmis er fjölmiðlamiðstöðin í miðbæ Kassel, þar sem þessi texti fæddist, einfaldlega kölluð Warung Kopi, en orðið merkir kaffihús á indónesísku. Þó skal áréttað að rödd mín hljómar að þessu sinni ekki frá Þýskalandi, heldur úr litlu og huggulegu hótelherbergi í Lundi í Svíþjóð þar sem ég sæki árlega ráðstefnu evrópskra listfélagsfræðinga á næstu dögum. 

Búðu til vini, ekki list

En ef við víkjum aftur að orðaforða Documenta-sýningarinnar þá ber sérstaklega að nefna hugatkið lumbung sem er algeng bygging víða um indónesíska eyjaklasann, eins konar hlaða sem geymir hrísgrjónaforða í samfélagslegri sameign þar sem hver meðlimur samfélagsins leggur til umframuppskeru af ökrum sínum sem síðan er deilt aftur til baka eftir þörfum hvers og eins. Sýningarstjórarnir hafa tekið sér lumbung til fyrirmyndar og ætla þeim auðlindum sem safnast saman á sýningu sem þessari; ekki aðeins fjármagni heldur jafnframt vinnuafli, hugmyndum, listaverkum, tengslaneti og tíma, svo eitthvað sé nefnt; að dreifast eftir þörfum á milli þeirra hátt í 1700 listamanna sem taka þátt að þessu sinni. Sobat-sobat, annað indónesískt orð í orðaforða sýningarinnar, merkir einfaldlega vinur, og vísar sérstaklega til þeirra hátt í 150 starfsmanna sem leiða gesti um einhverja af þeim þrjátíu og tveim sýningarstöðum sem dreift er um Kassel. Þó panta þurfi slíkar sýnisferðir sérstaklega og greiða fyrir þær, þá er hlutverk sobat-sobat að miðla persónulegri sýn sinni og þekkingu á sýningunni og víkka þannig enn frekar út vistkerfi hátíðarinnar á grundvelli vináttunnar sem er ennfremur í húfi í einu helsta slagorði hátíðarinnar, „make friends, not art,“ – búðu til vini, ekki list. 

Listsýning sem höfundarverk sýningarstjóra

Fimmæringurinn Documenta, sem hóf göngu sína 1955, er meðal helstu listastofnana Þýskalands. Sama ár hlaut Sambandslýðveldi Vestur-Þýskalands formlegt sjálfstæði frá bandamönnum og gekk í NATO. Sýningunni, sem dregur vissan dám af heimssýningum 19. aldar, var ekki síst ætlað að kveða í kútinn háðungarsýningar þær sem nasistar héldu á valdatíma sínum. Fyrstu sýningarstjórarnir, Arnold Bode og Werner Haftman, ætluðu sér að endurvekja tengsl Þjóðverja við nútímalist og lappa upp á ímynd Þýskalands sem menningarþjóðar meðal menningarþjóða í samtíma eftirstríðsáranna. Staðsetning hátíðarinnar í Kassel, aðeins þrjátíu kílómetra frá fyrrum landamærum Sambandslýðveldisins í vestri og Þýska Alþýðulýðveldisins í austri, var engin tilviljun. Þvert á móti var sýningunni ekki aðeins ætlað að draga að Þjóðverja beggja vegna landamæranna, heldur jafnframt að halda á lofti gildum Vesturlanda andspænis kommúnismanum austanmegin. Þetta mikilvæga hugmyndafræðilega hlutverk hátíðarinnar birtist meðal annars í listrænni áherslu fyrstu sýningarstjóranna á óhlutbundna list sem „alþjóðlegt tungumál frelsis“ andspænis því félagslega raunsæi sem kommúnísk stjórnvöld austar í álfunni kölluðu eftir á sama tíma. Slík menningarpólitík kann að hljóma kunnuglega og er til að mynda í brennidepli í umfjöllun Hauks Ingvarssonar í bókinni Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu sem kom út um síðustu jól og fjallar um komu rithöfundarins Williams Faulkners til Íslands 1955, einmitt sama ár og fyrsta Documenta-hátíðin var haldin. Documenta hefur þannig þjónað afar mikilvægu hlutverki í þýskri menningarstefnu auk þess sem pólitískt hlutverk sýningarstjórans hefur mótast með afgerandi hætti í sögu hátíðarinnar, allt frá áherslu Bode og Haftman á abstraktlist, til Haralds Szeemann sem festi í sessi hugmyndir um listasýninguna sem eins konar höfundarverk sýningarstjórans með Documenta 5 árið 1972 og í seinni tíð sýningarstjóra á borð við Catherine David sem stýrði tíundu útgáfu Documenta árið 1997 og Okwui Enwezor sem stýrði þeirri elleftu árið 2002. Hvort um sig endurskilgreindi hlutverk hátíðarinnar með tilliti til hnattvæðingar síðustu aldar, endurskoðunar á áhrifum nýlendustefnu, Evrópu- og Vesturlandamiðjaðrar, uppruna þeirra listamanna sem fram koma á hátíðinni sem og framsetningu og ásýnd þess heims sem dregin er upp mynd af á slíkum viðburðum. 

Félagslegt og pólitískt gildi listar

Sýningarstjórarnir sem nú taka við keflinu, Ade Darmawan, Ajeng Nurul Aini, Daniella Fitria Praptono, Farid Rakun, Indra Ameng, Iswanto Hartono, Julia Sarisetiati, Mirwan Andan, og Reza Afisina, eru öll í sama listahópi og var sá háttur hafður á, að í stað þess að allir sem fram koma á sýningunni séu handvaldir og jafnvel beðnir um að framleiða verk sérstaklega fyrir sýninguna var látið boð út ganga til fjórtán annarra listahópa eða kollektíva frá ólíkum stöðum í heiminum. Þessum hópum var úthlutað úr sameignlegum sjóðum og þeir beðnir um að láta boðið ganga áfram til annarra listahópa, vina og kunningja sem hefðu áhuga á að taka þátt í hátíðinni. Ennfremur var lögð áhersla á að fólk þyrfti ekki að framleiða ný verk til að koma fram á hátíðinni, heldur fremur að finna útfærslu, eða þýðingu, á þeirri starfsemi sem þegar færi fram á hverjum stað fyrir sig. Flestir eiga þátttakendurnir nefnilega sameiginlegt að vera með einum eða öðrum hætti uppteknir af félagslegu eða pólitísku gildi listsköpunar sinnar í ákveðnu landfræðilegu og menningarlegu samhengi fjarri Kassel og umfram þá hundrað daga sem hátíðin fer fram. Því má segja að, handan einskærrar framsetningar á pólitískri list af fjölþjóðlegum vettvangi, einkennist hugmyndafræði Documenta af vilja til þess að styrkja starfsemi listafólks á þeim stöðum þar sem þau hafa varið kröftum sínum hingað til. Enda eru hugtök eins og alþjóðleg, eða fjölþjóðleg list, ekki til umræðu í orðaforða sýningarinnar, heldur miklu frekar hugtakið inter-local, sem mætti ef til vill þýða sem fjölstaðbundið. Þó Documenta fari fram fyrir sjónum almennings dagana 18. júní til 25. september í Kassel í Þýskalandi, þá er henni ætlað að hafa áhrif mun víðar og mun lengur. Að því sögðu, þá er nálgun sýningarstjóranna í Kassel einnig kyrfilega staðbundin. Svo virðist, sem mikið sé lagt upp úr því að leggja rækt við samfélagið í borginni, ekki síst jaðarsetta hópa og listræna grasrótarstarfsemi. Auk þess hefur hluti hópsins verið í Kassel allt frá árinu 2020 og ég heimsótti einn þeirra, Reza Afisina í júní á síðasta ári í miðstöð sýningarinnar, hið svokallaða Ruruhaus. Þá þegar hörðu Reza og fjölskylda hans setið af sér covid-faraldurinn og unnið að því að styrkja staðbundin tengsl hátíðarinnar. Og þó flestir sýningarstjórar og listamenn yfirgefi Kassel á næstu vikum mun Reza auk annara halda úti starfsemi Ruruhaus, í það minnsta út árið 2023. 

Andsemitískt myndmál olli usla

Sýningin hefur verið mikið á milli tannanna á þýskum fjölmiðlum og almenningi frá því hún var opnuð vegna and-semitísks myndmáls í einu verka aðgerðalistahópsins Taring Padi sem barðist gegn harðneskju herforingjastjórnar Suhartos sem hélt indónesísku samfélagi og menningarlífi í heljargreipum allt fram til ársins 1998, sem og tilrauna til ritskoðunar á sýningum listahópsins Subversive Film á áróðurskvikmyndum frá sjöunda, áttunda og níunda áratug síðustu aldar sem halda á lofti málstað Palestínumanna og fundust í Tókíó í Japan fyrir nokkrum árum. Mér gefst ekki tóm að þessu sinni til að rýna þá málavexti alla og þau ólíku sjónarmið sem fram hafa komið um atvikin sem um ræðir, en ég hvet áhugasama til að kynna sér málið og drep á efninu í pistli mínum í næstu viku. Í síðasta pistli mínum leitast ég síðan við að framkalla einhvers konar hljóðmynd af þessari gríðarlega umfangsmiklu menningaframleiðslu sem er í raun aðeins að litlum hluta sýnileg í þeim verkum sem gestir og gangandi virða fyrir sér þessa dagana í Kassel. Það er nefnilega ferlið og það sem á sér stað á bak við tjöldin, á þeim fjölstaðbundna vettvangi sem vikið var að hér áðan, sem vegur þyngra en útkoman sjálf á Documenta fimmtán í Kassel í Þýskalandi um þessar mundir. Og hún er þó alls ekkert slor. 

Marteinn Sindri Jónsson flutti pistil sinn í Víðsjá á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Með heiminn á herðum sér

Menningarefni

Heilinn við köfun, söng og undir dáleiðslu