Grunaðir um framleiðslu vopna og taldir hættulegir

Gæsluvarðhald vegna vopnaframleiðslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Fjórir menn sem handteknir voru í umfangsmiklum aðgerðum sérsveitar ríkislögreglustjóra í gær eru taldir hafa staðið að vopnaframleiðslu með þrívíddarprenturum. Mennirnir eru taldir hættulegir og grunaðir um alvarlegar hótanir. 

Þetta herma heimildir fréttastofu, og einnig að farið verði fram á gæsluvarðhald yfir öllum fjórum mönnunum nú í kringum hádegi. Lögregla hyggst boða til blaðamannafundar vegna málsins í dag. 

Mennirnir voru handteknir í Holtasmára í Kópavogi og í iðnaðarhverfi í Mosfellsbæ í gær. Aðgerðirnar vöktu eftirtekt en lögregla varðist allra fregna - og gerir raunar enn, en sendi frá sér tilkynningu að aðgerðum loknum í gær og sagði að hættuástandi hefði verið afstýrt. Fjórir menn hefðu verið handteknir vegna gruns um viðamikil vopnalagabrot og skipulagða glæpastarfsemi. 

Gæsluvarðhald vegna vopnaframleiðslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Mennirnir voru leiddir fyrir dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur um hádegisbil.

Aðgerðirnar voru á forræði ríkislögreglustjóra en embættið hefur það hlutverk að rannsaka öll brot sem snúa að landráðum, brotum gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórn. 
                
Samkvæmt heimildum fréttastofu eru mennirnir grunaðir um framleiðslu á skotvopnum með þrívíddarprenturum, sem er tækni sem hefur færst nokkuð í vöxt víða um heim síðustu ár og valdið lögreglu áhyggjum. Auk þess sem þeir eru taldir hafa staðið í alvarlegum hótunum. Sem fyrr segir verst lögregla allra fregna en hyggst veita frekari upplýsingar á blaðamannafundi síðar í dag. 

sunnaks's picture
Sunna Karen Sigurþórsdóttir
Fréttastofa RÚV