Gríðarmikil sprenging í fjölbýlishúsi í Solna

22.09.2022 - 23:43
Mynd með færslu
 Mynd: svt
Gríðarmikil sprenging varð í fjölbýlishúsi í Huvudsta í Solna norðan við Stokkhólm höfuðborg Svíþjóðar á ellefta tímanum í kvöld að staðartíma. Ekki hafa borist fréttir af því að nokkur hafi slasast.

Hvellurinn heyrðist víða um norðanverða Stokkhólmsborg og alla leið að miðborginni og því er fólki mjög brugðið, að sögn Daniels Wikdahl, talsmanns lögreglu.

Hann segir fjölda símtala hafa borist lögreglu vegna málsins. Sprengingin varð í stigagangi fjölbýlishússins en ekki er enn vitað hvað olli henni. Stigagangurinn skemmdist mikið og gluggarúður brotnuðu í nærliggjandi húsum.

Tekin var ákvörðun um að flytja 28 íbúa hússins á brott þar sem óttast er burðarverk þess hafi laskast við sprenginguna. Borgaryfirvöld í Solna hafa útvegað fólkinu húsaskjól og áfallahjálp.

Sænska ríkisútvarpið hefur eftir Niklas Nordvall, varðstjóra hjá Slökkviliði Stokkhólmsborgar, að ekki sé vitað hvort hætta sé á fleiri sprengingum. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins.