Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Farið fram á 12 ára dóma í saltdreifaramálinu

22.09.2022 - 11:23
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Ákæruvaldið fer fram á 12 ára hámarksfangelsisdóm yfir Guðlaugi Agnari Guðmundssyni, jafnþungan dóm yfir Ólafi Ágústi Hraundal, jafnþungan dóm yfir íslenskum athafnamanni og jafnþungan dóm yfir íslenskum bónda í einu stærsta fíkniefnabrotamáli íslenskrar réttarsögu. Þetta kom fram við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Þá er farið er fram á tveggja ára dóm yfir íslenskum manni, sem vísað hefur verið til fyrir dómi sem sérfræðings við grasræktun. Ákæruvaldið leggur til að Ólafi Ágústi verði gert að greiða þrjár milljónir króna rúmar í sakarkostnað, Guðlaugi 217 þúsund krónur, athafnamanninum og bóndanum hvorum um sig 279 þúsund krónur og sérfræðingnum í grasræktun 59 þúsund krónur.

Guðlaugi Arnari og athafnamanninum íslenska er gefið að sök að hafa að smyglað hingað til lands 53 lítrum af amfetamínbasa, sem var falinn inni í saltdreifara sem kom til Þorlákshafnar snemma árs 2020.

NuclearFork og ResidentKiller eru notendanöfn tveggja Íslendinga á undirheimaforritinu EncroChat, sem franska lögreglan braust inn í fyrir tveimur árum. Þar ræddu mennirnir saman um það að koma höndum yfir saltdreifarann, saga amfetamínvökvann út úr ílöngum prófílbitum á dreifaranum og framleiða svo úr vökvanum amfetamínduft. Lögregla telur að þarna hafi verið framleidd yfir 100 kíló af amfetamíni – talan sem nefnd er í ákæru er 117,5 kíló. Þau hafa ekki nema að mjög litlu leyti endað í höndum lögreglu.

Lögregla metur það sem svo að götuverðmæti þessara efna, sem og annarra sem lagt var hald á og fjallað verður um síðar í þessari frétt, hafi verið um 1,7 milljarður króna.

Ákæruvaldið telur að ResidentKiller sé notendanafn íslenska athafnamannsins á EncroChat en Nuclearfork sé notendanafn Guðlaugs Agnars Guðmundssonar. Þessu þverneituðu þeir báðir fyrir dómi.

Söguleg brotastarfsemi

Ólafur Ágúst er nafngreindur hér vegna viðamikils sakaferils hans. Hann fékk níu ára fangelsisdóm í stóra fíkniefnamálinu um aldamótin síðustu, og um sjö árum síðar fékk hann svo níu og hálfs árs dóm fyrir að smygla til landsins 15 kílóum af amfetamíni og 10 kílóum af kannabisefnum í BMW-bíl. Þetta eru tveir af þyngstu dómum sem fallið hafa hérlendis fyrir fíkniefnasmygl, þótt tekið skuli fram að í þeim síðarnefnda voru eftirstöðvar þess fyrri dæmdar upp.

Ólafur er ákærður nú fyrir að hafa haft í fórum sínum mesta magn fíkniefna sem lögregla hefur lagt hald á í einni aðgerð;  Í bílskúr í Hafnarfirði voru 224 grömm af amfetamíni, 1800 grömm af kókaíni, 6,7 kíló af MDMA-dufti, 1,8 kíló af metamfetamíni, 42 lítrar af amfetamínvökva, 21 lítri af MDMA-vökva og 7100 MDMA-töflur. Í hesthúsi í Víðidal fundust svo 462 grömm af amfetamíni, 26 kíló af hassi, 260 millilítrar af amfetamínvökva, þrjú kíló af marijúana og lítilræði af kókaíni, metamfetamíni, LSD og MDMA.  

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV