Eldur slökktur í geymsluskúr við Gránufélagsgötu

22.09.2022 - 06:11
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Slökkvilið Akureyrar var kallað að geymsluskúr við Gránufélagsgötu á fimmta tímanum í nótt. Skúrinn var alelda þegar slökkviliðið kom að og lagði mikinn reyk frá brennandi húsinu.

Að sögn varðstjóra hjá Slökkviliði Akureyrar þurfti þó ekki að rýma nálæg hús og þakkar hann það því að flestir gluggar í híbýlum fólks voru lokaðir.

Hann segir að um klukkustund hafi tekið að slökkva eldinn en skúrinn, og allt sem í honum var, húsgögn og rusl, er ónýtt. Engum stafaði hætta af eldsvoðanum að sögn varðstjórans en lögregla er nú á vakt við brunastaðinn. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV