Boeing fær 30 milljarða sekt vegna MAX-vélanna

22.09.2022 - 23:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Bandarísk yfirvöld sektuðu flugvélaframleiðandann Boeing um 200 milljónir dala, andvirði nærri þrjátíu milljarða króna, í dag fyrir að hafa veitt rangar eða afvegaleiðandi upplýsingar um öryggi flugvéla af gerðinni Boeing 737 MAX.

MAX-vélarnar voru kyrrsettar um allan heim eftir tvö banvæn flugslys. Annars vegar í Indónesíu í október 2018 og hins vegar í Eþíópíu fimm mánuðum síðar. Nærri 350 fórust í slysunum tveimur samanlagt.

Icelandair var á meðal þeirra véla sem kyrrsettu MAX-vélarnar á sínum tíma en þær voru teknar aftur í notkun í fyrra. Í tilkynningu sagði fyrirtækið þá að tuttugu mánaða samstarfi fjölda aðila allan heim hafi lokið með því að flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum, Kanada og Evrópu hafi staðfest flughæfi vélanna. Tilkynnti fyrirtækið síðan um það í sumar að það hafi gert samning um langtímaleigu á tveimur slíkum vélum til viðbótar.

Boeing féllst á að greiða sektina til þess að útkljá dómsmál þar sem fyrirtækið var sakað um brot á bandarískum viðskiptalögum. Dennis Muilenburg, fyrrverandi framkvæmdastjóri, gerði svo sjálfur samkomulag um milljón dala sektargreiðslu.

Mánuði eftir flugslysið í Indónesíu gaf Boeing í skyn í fréttatilkynningu að mistök flugmanns og skortur á viðhaldi hafi valdið slysinu. vélarnar sjálfar væru öruggar. Á þeim tíma vissi Boeing þó, sögðu bandarísk yfirvöld í dag, af galla í sjálfstýringarbúnaði vélarinnar. Fleiri gallar komu í ljós í kjölfarið. Boeing féllst síðast í fyrra á að greiða 2,5 milljarða dala sekt í sambærilegu máli í Bandaríkjunum.

Þórgnýr Einar Albertsson