Atkvæðagreiðslur í fjórum héruðum á morgun

22.09.2022 - 15:49
Women walk past a destroyed apartment building in Mariupol, in territory under the government of the Donetsk People's Republic, eastern Ukraine, Monday, May 2, 2022. (AP Photo/Alexei Alexandrov)
 Mynd: AP - RÚV
Atkvæðagreiðslur hefjast í fjórum úkraínskum héruðum á morgun um hvort þau skuli innlimuð í Rússland. Rússneskir embættismenn á hernumdum svæðum í þessum héruðum boðuðu til atkvæðagreiðslnanna.

Frá morgundeginum og fram til þriðjudags býðst íbúum hernámssvæða í Kherson, Zaporizhzhia, Donetsk og Luhansk-héruðum Úkraínu að greiða atkvæði um hvort héruðin skuli verða hluti af Rússlandi. Þessar atkvæðagreiðslur verða hins vegar falskar og ekki lýðræðislegar, að mati vestrænna leiðtoga.

Nærri öruggt þykir að niðurstaðan verði alls staðar sú sama; að samþykkja innlimun. Evrópusambandið ætlar ekki að viðurkenna niðurstöðurnar en Vladímír Pútín Rússlandsforseti sagði í gær nauðsynlegt að Rússland styddi þá íbúa Úkraínu sem vilja taka ákvörðun um eigin framtíð.

Rússneski ríkismiðillinn RIA greindi frá því í dag að bæklingum væri nú dreift til héraðsbúa í Luhansk með yfirskriftinni „Rússland er framtíðin“. Þar segir að héraðið hafi í aldaraðir verið hluti af sama ríki og Rússland og að sundrun þess ríkis hafi verið pólitískur harmleikur.

Dmítrí Medvedev, varaformaður rússneska þjóðaröryggisráðsins og fyrrverandi forseti, sagði að Rússar gætu vel hugsað sér að nota kjarnorkuvopn til að verja þau héruð sem innlimuð verða í Rússland. Vert er að taka fram að átakalínan liggur í gegnum öll héruðin fjögur.

Þórgnýr Einar Albertsson