Alþjóðasamfélagið hyggst beita Rússa auknum þrýstingi

epa10197980 President of Ukraine, Volodymyr Zelenskyy deliver his video address during the 77th General Debate inside the General Assembly Hall at United Nations Headquarters in New York, New York, USA, 21 September 2022.  EPA-EFE/Peter Foley
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Alþjóðlegur þrýstingur verður aukinn gagnvart Rússum í kjölfar herkvaðningar Rússlandsforseta í gær og lítt dulinna hótana hans um beitingu kjarnavopna. Utanríkisráðherrar Evrópusambandsins héldu neyðarfund í gær og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman með morgninum.

Frakkar fóru fram á fund utanríkisráðherra þeirra ríkja sem sæti eiga í öryggisráðinu. Þar verður Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, látinn standa fyrir máli sínu frammi fyrir kollegum sínum.

Þeirra á meðal verður Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem ekki hefur viljað hitta Lavrov augliti til auglitis frá upphafi innrásarinnar.

Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti krafðist í ávarpi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær að Rússum yrði refsað harkalega fyrir athæfi sitt, landvinninga, pyntingar, niðurlægingar og morð á almennum borgurum.

Zelensky krafðist réttarhalda yfir rússneskum ráðamönnum og að Rússar yrðu látnir greiða allt tjón í Úkraínu fullu verði.

Zelensky sagði tilgangslaust að reyna að semja um frið við Rússa enda hefðu þeir engan áhuga á að fara að alþjóðlegum skuldbindingum. Hann krafðist þess sömuleiðis að Rússar yrðu sviptir neitunarvaldi sínu í öryggisráðinu. 

Evrópusambandið íhugar frekari refsiaðgerðir

Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna íhuga frekari refsiaðgerðir gegn Rússum eftir að þeir héldu neyðarfund í New York í gær.

Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands, heitir áframhaldandi hernaðarstuðningi við Úkraínumenn. Það var meðal þess sem hún sagði í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gærkvöld.  

„Á þessari ögurstundu heiti ég því að viðhalda og jafnvel auka hernaðarlega liðveislu við Úkraínu, eins lengi og nauðsyn krefur,“ sagði Truss og bætti við að Bretar yndu sér ekki hvíldar fyrr en Úkraínumenn hefðu sigur gegn innrásarliði Rússa.

Hún gerði einnig að tillögu sinni að NATÓ ríkin styddu aðildarríki sem þola þyrftu árásir á efnahag sinn. „Öll fyrir eitt og eitt fyrir öll,“ sagði Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

epa10198067 British Prime Minister Liz Truss delivers her address during the 77th General Debate inside the General Assembly Hall at United Nations Headquarters in New York, New York, USA, 21 September 2022.  EPA-EFE/Peter Foley
 Mynd: EPA-EFE - EPA