Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Allt í fokki hjá Flokki fólksins

22.09.2022 - 13:15
Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV
Það hefur ekki blásið byrlega fyrir Flokki fólksins undanfarið. Eftir stórsigur í Alþingiskosningum og gott gengi í sveitarstjórnarkosningunum, hefðu sumir sagt að nú væri tækifæri fyrir flokkinn að láta til sín taka. En hneykslismálin hafa gert honum erfitt um vik. Karlarnir virðast sumir hafa átt í vandræðum með sig, þá sérstaklega hvað varðar samskipti við konur. Það andar nú köldu á milli forystu flokksins og karlanna á efstu sætum listans á Akureyri. Þetta helst skoðaði Flokk fólksins.

Þátt dagsins um Flokk fólksins má nálgast hér í spilaranum að ofan.

Flokkur fólksins kynnir sig sem stjórnmálaafl sem ætlar að útrýma fátækt og berjast gegn spillingu. Öryrkjar, aldraðir og fátækir þurfa rödd á Alþingi. Flokkur fólksins ætlar að útrýma óréttlæti á Íslandi, svo allir fái lifað mannsæmandi lífi. Lífsgæði eru ekki einkaréttur útvalinna! Svo segir í lýsingu flokksins á heimasíðu þeirra. Flokknum gekk nokkuð vel í síðustu tveimur kosningum - Alþingis og sveitarstjórnarkosningum. Þau náðu inn manni í fyrsta sinn í bæjarstjórn á Akureyri og eiga nú sex þingmenn, jafn marga og Samfylkingin.  

Þetta var risa-sigur fyrir Flokk fólksins síðasta haust, en það var ekki langt liðið á þingstörfin þar til einn þingmaðurinn var kominn í klípu. Tómas Tómasson þingmaður hafði skrifað verulega ósmekkleg SMS skilaboð til vinar síns fyrir nokkrum árum og skjáskoti af þeim lekið í fjölmiðla. Þetta var í apríl síðastliðnum. 

Svo var það núna um daginn, þriðjudaginn 13. september, sem fréttir tóku að berast úr herbúðum Flokks fólksins á Akureyri - um að þar væri eitthvað ósætti. Ósætti er reyndar kannski ekki nógu sterkt orð til að lýsa því sem virtist hafa verið í gangi þar, að minnsta kosti samkvæmt konunum í flokknum. Það ber að taka fram að ekki eru öll sammála um málavöxtu. Búið er að hóta meiðyrðakærum, lögreglurannsókn, afsögnum og fleiru í þeim dúr. Farið var yfir málið í Þetta helst - sem má nálgast í spilaranum hér að ofan, á Spilara RÚV og öllum helstu hlaðvarpsveitum.