150 ár frá mannskæðasta sjóslysi á Djúpavogi

22.09.2022 - 10:38
Mynd: Maciej Pietrunko
 Mynd: Mynd: Maciej Pietrunko - Aðsent
Í dag eru liðin 150 ár frá mannskæðasta sjóslysi sem orðið hefur við Djúpavog, þegar tíu manns fórust með bát þar skammt frá. Af þessu tilefni var minningarstund haldin við Æðarsteinsvita á Djúpavogi á dögunum.

Allt að 30 manns kom saman við vitann til að minnast slyssins, auk þess að minnast þess að vitinn sjálfur var reistur fyrir hundrað árum síðan. Minningarskildi um sjóslysið var komið fyrir á vitahúsinu og skúlptúr einnig afhjúpaður.

Þeir Kristján Ingimarsson og Reynir Arnórsson hófu stundina á því að segja frá tilurð verkefnisins, en þeir áttu frumkvæði að því. Við framkvæmdina nutu þeir aðstoðar fjölda einstaklinga og fyrirtækja á Djúpavogi. Séra Alfreð Örn Finnsson flutti því næst hugvekju og bæn. Að því loknu var tíu blómum, jafnmörgum og þeir sem létu lífið í slysinu, kastað í sjóinn. Það var elsti íbúi Djúpavogs, Guðrún Guðjóndóttir, sem afhjúpaði minningarskjöldinn. Andri Jón Sigurðsson, fimm ára sjómannssonur, afhjúpaði síðan skipslíkan sem hannað var af þeim Kristjáni og Reyni, og skorið út af Guðjóni Sigurðssyni. Að því loknu var viðstöddum boðið upp á léttar veitingar.

Tilgangurinn með atburðinum var að minnast þeirra sem týndu lífinu í slysinu, viðhalda menningararfi svæðisins og minna á mikilvægi öryggismála fyrir sæfara.

Mynd: Maciej Pietrunko
 Mynd: Mynd: Maciej Pietrunko - Aðsent
Guðrún Guðjónsdóttir afhjúpar minningarskjöldinn. Mynd: Maciej Pietrunko.

Sumrinu áður en slysið varð er lýst sem einu blíðasta og fegursta sumri aldarinnar, í grein eftir Eirík Sigurðsson sem birtist í Sunnudagsblaði Tímans 8. apríl 1962. Það var komið undir sólsetur á mildum haustdegi 22. september þegar hópurinn sem ætlaði að ferðast á bátnum lagði af stað. Foreldrar barna sem dvalið höfðu á bænum Teigarhorni þetta sumar komu ásamt föruneyti til að sækja þau og ferja heim. Bæði var komið með hesta og bát, en báturinn átti að flytja farangur. Stór hluti hópsins vildi hins vegar sigla á bátnum til baka. 

Ekkert lá á þar sem leiðin sem átti að fara var stutt. Meirihluti þeirra sem ferðuðust með bátnum voru börn og ungmenni. Hundur var einnig með í för og talsvert af farangri. Báturinn virðist þó ekki hafa verið álitinn of þungur til ferðarinnar. Sjór var kyrr þetta kvöld og aðeins hæg gola af norðri.

Foreldrar nokkurra barnanna á bátnum riðu landleiðina á hestum. Báturinn hefði átt að vera kominn á áfangastað á undan þeim en þegar svo var ekki þóttist faðirinn viss um að slys hefði orðið. Strax var farið að leita, en það gekk illa sökum myrkurs. Fljótlega fundust þó höfuðföt af fólkinu á bátnum í flæðarmálinu. Næstu daga var gerð mikil leit bæði á sjó og landi, en hundurinn var sá eini sem rak á land, auk einhvers smálegs úr bátnum. Talið var að báturinn hlyti að hafa farist á grunnsævi nærri landi, þar sem botninn var stórgrýttur og mikill þari. Viku eftir hvarf bátsins rak lík einnar stúlkunnar á land. Um veturinn fannst annað lík. Hvorki báturinn né árar úr honum fundust nokkurn tíma.

Mynd: Maciej Pietrunko
 Mynd: Mynd: Maciej Pietrunko - Aðsent
Skúlptúrinn sem hannaður var af Kristjáni Ingimarssyni og Reyni Arnórssyni, og skorinn út af Guðjóni Sigurðssyni. Mynd: Maciej Pietrunko.

„Okkur finnst mikilvægt að halda sögu svæðisins til haga og heiðra minningu þeirra sem fórust í þessu slysi og með þessu verkefni vonum við að það auki upplifun þeirra sem ganga hér um þegar vitinn er skoðaður,“ sagði Reynir Arnórsson í ræðu við athöfnina.

Mynd: Maciej Pietrunko
 Mynd: Mynd: Maciej Pietrunko - Aðsent
Mynd: Maciej Pietrunko