Vefsvæði hryðjuverkasamtaka var hýst hér á landi

21.09.2022 - 14:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í júní á kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að hýsingarfyrirtæki væri skylt að láta af hendi allar upplýsingar um vef sem fyrirtækið hýsti. Krafan var vegna rannsóknar hjá lögreglu í erlendu ríki. Vefurinn var sagður á vegum hryðjuverkasamtaka þar sem fólk var hvatt til að stunda hryðjuverkastarfsemi, annað hvort með ofbeldi í sínu heimalandi eða með því að dreifa áróðri um slíkt.

Úrskurðurinn var ekki birtur fyrr en nýlega á vef Landsréttar.

Ólafur Örn Svansson, verjandi hýsingarfyrirtækisins fyrir Landsrétti, vildi ekki gefa upp nafn félagsins og sagðist ekki hafa upplýsingar um hvaða hryðjuverkasamtök þetta væru. 

Inga Lillý Brynjólfsdóttir, sem var skipuð talsmaður hýsingarfyrirtækisins fyrir héraðsdómi, gat heldur ekki veitt upplýsingar um hýsingarfyrirtækið eða hryðjuverkasamtökin. 

Þekkt er að hryðjuverkasamtök á borð við ISIS nýta sér netið til að koma skilaboðum og áróðri á framfæri. Fyrir átta árum neyddist ISNIC til að loka á vef ISIS. Framkvæmdastjóri ISNIC sagði þá að fyrirtækið hefði aldrei áður látið lokað léni vegna innihalds vefjar.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að embætti ríkissaksóknara hafi í apríl fengið beiðni um réttaraðstoð frá erlendu ríki í tengslum við rannsókn á hryðjuverkasamstarfsemi á vegum og í gegnum vefsvæði samtakanna. Þar væri áróðursefni samtakanna birt og dreift. 

Við rannsókn málsins hefði komið í ljós að vefurinn væri hýstur af fyrirtæki á Íslandi.  Á umræddum vef væri fólk hvatt til að framkvæma ofbeldisverknað í sínu heimalandi eða dreifa áróðri um slíkt. 

Pétur Hrafn Hafstein, aðstoðarsaksóknari hjá embætti ríkissaksóknara, segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að vegna alvarleika þeirra brota sem séu til rannsóknar hjá erlenda ríkinu og augljósra rannsóknarhagsmuna sé ekki hægt að veita upplýsingar um hýsingarfyrirtækið, hryðjuverkasamtökin eða frá hvaða landi umrædd réttarbeiðni barst.

Ríkissaksóknari ákvað að verða við réttarbeiðninni og fól lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að afla þeirra upplýsinga sem beðið væri um.  Þær væru taldar nauðsynlegar við rannsóknina, meðal annars til að bera kennsl á þá sem stæðu að baki vefsvæðinu.  Tilgangurinn væri annars vegar að afla sönnunargagna um meint hryðjuverk og hins vegar að draga úr líkum á að hryðjuverk væru framin. 

Hýsingarfyrirtækið neitaði að láta upplýsingarnar af hendi án dómsúrskurðar. Í úrskurðinum kemur fram að talið sé afar mikilvægt fyrir rannsóknina að lögregla fái heimild til umbeðinnar rannsóknaraðgerðar þar sem málið snerti þjóðöryggi hins erlenda ríkis og jafnvel annarra þjóða. 

Héraðsdómur féllst á beiðni lögreglunnar. Dómurinn segir í úrskurði sínum að þær upplýsingar sem kunni að fást með aðgerð lögreglu geti skipt miklu fyrir rannsókn málsins. Augljósir rannsóknarhagsmunir væru fyrir hendi sem væru ríkari en að fjarskiptaleynd héldist.

Meðal gagna sem lögreglan fékk afhent var afrit af netþjóni með IP-tölu og öll öryggisafrit.  Þá voru allar upplýsingar um skráningu netþjónsins, greiðsluupplýsingar, innihald tölvupóstreikninga tengdu vefsvæðinu einnig afhentar. Og allar aðrar upplýsingar sem taldar voru geta varpað ljósi á hver eða hverjir væru raunverulegir stjórnendur og notendur vefsvæðisins eða vefsvæðanna.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hryðjuverkasamtök hýsa vef sinn á Íslandi. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV