Tala látinna hækkar í mótmælum í Íran

epa10195629 Iranian poeple light candles and hold pictures of Iranian Mahsa Amini druing a protest after her death, in Istanbul, Turkey, 20 September 2022. Mahsa Amini, a 22-year-old Iranian woman, was arrested on 13 September by the police unit responsible for enforcing Iran's strict dress code for women and was declared dead on 16 September, after she spent 3 days in a coma.  EPA-EFE/ERDEM SAHIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sjö hafa látist og tugir eru sagðir hafa særst í fjölmennum mótmælum í Íran síðustu daga. Mótmælin brutust út eftir að ung kona lést í haldi svokallaðrar siðferðislögreglu. Fjölskylda hennar telur að hún hafi verið barin til bana. 

Hin tuttugu og tveggja ára gamla Masha Amini var á ferðalagi í höfuðborginni Teheran á þriðjudag í síðustu viku þegar hún var handtekin af siðferðislögreglu fyrir meint brot á reglum um að bera slæðu. Hún var vissulega með slæðu en að mati siðferðislögreglunnar huldi slæðan ekki nógu mikið af höfði hennar. Til stóð að neyða hana til að sitja námskeið um klæðaburð.

Amini lést í haldi lögreglu þremur dögum síðar og hefur fjölskylda hennar og vitni sagt að hún hafi verið barin til dauða. Yfirvöld halda því hins vegar fram að hún hafi fengið hjartaáfall og hafa heitið því að rannsaka andlátið. 

Konur brenna slæður sínar

Í dag er fjórði dagurinn í röð þar sem mótmælt er í Íran vegna andláts Amini. Mótmælin hófust í Kúrdistan, heimahéraði hennar, og hafa síðan dreifst víða um landið. Fólk á öllum aldri hefur mótmælt yfirvöldum og siðferðislögreglunni, og hrópað slagorð gegn klerkastjórninni. Konur hafa brennt slæður sínar í mótmælaskyni og klippt hár sitt.

Mótmælin eru þau fjölmennustu frá 2019, þegar Íranar mótmæltu hækkun olíuverðs.

Siðferðislögreglan hefur mætt á mótmælin og handtekið fjölda kvenna. Þá hefur öryggislögreglan tekið harkalega á mótmælendum, skotið á þá gúmmíkúlum og beitt táragasi. Fjöldi fólks er sagður í haldi lögreglu. Sjö, hið minnsta, hafa látið lífið eftir aðfarir lögreglu og skipuleggjendur mótmælanna segja að tugir og jafnvel hundruð hafi særst. 

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá írönskum yfirvöldum létust þrír í mótmælunum í gær, þar á meðal meðlimur í öryggislögreglunni. 

Segja fleiri hafa látist

Hengaw, baráttuhópur fyrir réttindum Kúrda, hefur fullyrt að fleiri hafi látist í mótmælunum en yfirvöld hafa upplýst um. Samkvæmt hópnum féllu þrír mótmælendur fyrir hendi öryggislögreglunnar á og í kringum svæði Kúrda í gær. Þar hafa átökin verið sérlega hörð. Írönsk yfirvöld hafa neitað því staðfastlega að öryggislögreglan hafi drepið mótmælendur. 

Að minnsta kosti þrír létust í mótmælunum á mánudag, samkvæmt AFP fréttastofunni. 

Hengaw-hópurinn hefur einnig sagt að slökkt hafi verið á aðgangi að internetinu í Kúrdistan. Það komi í veg fyrir að hægt sé að dreifa myndskeiðum frá svæðinu af aðför lögreglu. 

Síðan í byltingu árið 1979, þegar íhaldssamir klerkar komust til valda, hafa ströng lög gilt um klæðaburð í Íran. Eftir útbreidd mótmæli árið 2017 þegar konur tóku af sér slæður voru lögin hert enn frekar. Kallað hefur verið eftir að lögin verði felld úr gildi en þeir allra íhaldssömustu vilja herða refsingar við brotum á þeim enn frekar. 

Nada Al-Nashif, starfandi framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, hefur krafist umsvifalausrar rannsóknar á andláti Amini og ásökunum á hendur siðgæðislögreglunni um pyntingar og illa meðferð á fólki.