Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Stríðið komið inn á heimili fólks í Rússlandi

21.09.2022 - 09:22
Mynd: RÚV / RÚV
Með orðræðu sinni í sjónvarpsávarpi í morgun var Vladimír Pútín að færa stríð Rússlands gegn Úkraínu inn í Rússland, að sögn Jóns Ólafssonar, prófessors og sérfræðings í málefnum Rússlands. „Þetta er ekki lengur bara sérstök hernaðaraðgerð í mælskulist stjórnvalda, heldur er þetta orðið árásarstríð ef svo má segja,“ segir Jón í samtali við fréttastofu.

Pútín boðaði í morgun herkvaðningu varaliðs Rússlandshers, sem varnarmálaráðherrann Sergei Shoigu staðfesti að teldi um 300 þúsund manns. Í orðræðu þeirra beggja mátti heyra að stríðið væri nú ekki gegn Úkraínu, heldur væru Rússar að verjast hinum vestræna heimi eins og hann leggur sig. „Núna talar hann á þann hátt að Rússland þurfi að verja sjálft sig fyrir vesturlöndum, Úkraína skipti í sjálfu sér engu máli og nýnasistarnir þar,“ segir Jón. „Það séu vesturlöndin sem ætli að knésetja Rússland. Það er þá orðin réttlætingin á því að verja hin sögulegu lönd Rússlands,“ sem eru Donbass héruðin tvö auk Kherson og Saporosjía. 

Færir sig í átt til öfgafyllri hópa

Pútín einblínir nú á þessi fjögur héruð. Hann segir stjórnvöld í Kænugarði hafa rænt völdum þar árið 2014, „og það sé í raun partur af sjálfsvörn Rússlands gagnvart þessu valdaráni að frelsa rússneskumælandi íbúa þessara svæða, enda séu þetta hin sögulegu svæði nýja Rússlands,“ hefur Jón eftir ávarpi Pútíns. Forsetinn hefur yfirleitt ekki talað um nýja Rússland, heldur hefur það verið hluti af orðræðu aðeins öfgafyllri hópa en Pútín hefur viljað tengja sig við að sögn Jóns.

Herkvaðningin hefur þau áhrif að stríðið er nú miklu meira inni á hverju heimili í Rússlandi, segir Jón. Horfa verði til þess næstu daga hvort einhver viðbrögð verði við ávarpinu. Pútín boðaði einnig mikla aukningu í hergagnaframleiðslu í gær, allt að fer- til átjánföldun á ýmsum hlutum. „En með slíkri framleiðsluaukningu er náttúrulega verið að setja landið í stríðsástand. Það er auðvitað stóra breytingin. Núna eftir þetta eiga Rússar eftir að finna miklu meira fyrir staðreynd stríðsrekstursins heldur en áður. Það mun vera nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að halda því að fólki að þetta sé ekki bara spurning um aðgerð í Úkraínu, heldur sé þetta spurning um að verja Rússland,“ segir Jón.

Grimmúðleg mælskulist breytir engu

Pútín minntist einmitt á það í morgun að Rússar væru tilbúnir til að beita öllum aðferðum og ráðum til að verja landið, þar á meðal kjarnorkuvopnum. „Orðalagið og tónninn er orðinn harðari og grimimilegri, en eftir sem áður held ég að það sé ekki meiri hætta sem stendur á notkun kjarnorkuvopna en hefur verið,“ segir Jón. Hvort hörð orðræða Pútíns eigi eftir að skila sér í harðari átökum í Úkraínu kveðst Jón ekki viss um. Endurheimt Úkraínumanna á landsvæðum síðustu vikurnar sýni að Rússar hafi ekki mátt til að svara Úkraínumönnum með sterkum hætti. „Það breytist ekkert á einum degi með grimmúðlegri mælskulist,“ segir Jón.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Jón í heild sinni í spilaranum hér að ofan.