Segir opinberu fjármagni til menningarstofnana misskipt

21.09.2022 - 13:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Þungur rekstur blasir við í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri og framkvæmdastjórinn segir ljóst að síðasta ár verði gert upp með tapi. Hún gagnrýnir ójafna skiptingu á fjármunum sem menningarstofnanir fá úr ríkissjóði.

Það eru þrjár meginstoðir í starfsemi Menningarfélags Akureyrar: Leikfélag Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Menningarhúsið Hof.

Reksturinn þungur og þarf að sníða stakk eftir vexti

Eva Hrund Einarsdóttir, framkvæmdastjóri MAK, segir reksturinn þungan. Hún finni fyrir aukinni verðbólgu eins og aðrir í svipuðum rekstri og það hafi þurft að sníða stakk eftir vexti. „Við vitum núna að við munum koma út í mínus á síðasta ári. Þannig að við þurfum aðeins að taka tillit til þess á komandi rekstrarári.“ Enn sé þó verið að ljúka við ársreikning félagsins og því sé ekki rétt af henni að gefa upp ákveðnar tölur.

Ójöfn skipting á fjárframlögum til menningarstofnana

Í þessu samhengi segir hún skiptingu á fjárframlögum ríkisins til menningarstofnana í landinu vera ójafna. Menningarfélag Akureyrar fái þar mun minna en ýmsar sambærilegar stofnanir. Til dæmis sé félagið með 300 milljónir króna í rekstrarfé á ári, frá ríki og bæ, á meðan Þjóðleikhúsið fái 1,8 milljarða frá ríkinu. „Við teljum okkur líka vera að sinna mjög stóru starfssvæði, öllu Norðausturlandi, þannig að við teljum að skiptingin ætti að vera réttlátari.“

Þurfi meira fé til svæðisbundinnar menningar  

Sú vinna sem hafin sé um svæðisbundið hlutverk Akureyrar, svæðisborg, auki vonir um að þetta breytist. „Þar sem talað er um að það þurfi að setja meira fjármagn í menningu á svæðinu.“

Rætt var við Evu Hrund á Morgunvaktinni á Rás eitt.