Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ráðamenn Tyrklands og Ísraels ræða saman

epa10195441 Turkish President Recep Tayyip Erdogan delivers his address during the 77th General Debate inside the General Assembly Hall at United Nations Headquarters in New York, New York, USA, 20 September 2022.  EPA-EFE/JASON SZENES
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yair Lapid, forsætisáðherra Ísraels, leitaði í gær fulltingis Receps Tayyips Erdogans, forseta Tyrklands, við að fá ísraelska borgara leysta úr haldi palestínskra vígasveita Hamas. Heldur hefur dregið úr spennu milli ríkjanna undanfarið. Leiðtogarnir hittust í tenglsum við fund Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.

Þetta er í fyrsta sinn í yfir áratug sem Tyrklandsforseti ræðir við ísraelskan forsætisráðherra. Mánuður er liðinn síðan ríkin tvö endurnýjuðu diplómatísk tengsl en samskipti ríkjanna hafa verið kuldaleg árum saman.

Þakkaði aðstoð við njósnir um Írana

Í yfirlýsingu ísraelskra stjórnvalda segir að Lapid hafi rætt mikilvægi þess að frelsa Ísraela úr haldi Hamas og koma þeim heim aftur. Sömuleiðis þakkaði Lapid Erdogan fyrir veitta aðstoð leyniþjónustu Tyrklands við eftirlit með athöfnum Íransstjórnar. Ísraelsk stjórnvöld líta á Írana sem erkióvini sína.

Talið er að tveir Ísrealsmenn séu í haldi Hamas-samtakanna, sem ráða lögum og lofum á Gaza-svæðinu. Erdogan hélt tengslum við Hamas á sama tíma og samskiptin við Ísrael urðu sífellt stirðari.

Áréttaði kröfu um ríki Palestínumanna

Í ávarpi sínu frammi fyrir allsherjarþinginu áréttaði Erdogan kröfu um stofnun palestínsks ríkis með Austur-Jerúsalem sem höfuðborg. Hann sagði brýnt að halda góðu sambandi við Ísrael svo tryggja mætti frið og stöðugleika í heimshlutanum. 

Tyrklandsforseti sagði það afar mikilvægt til framtíðar fyrir almenning í Ísrael, Palestínu og Tyrklandi. Erdogan hefur á liðnum mánuðum lagt sig fram um að lægja öldur í samskiptum við fleiri ríki á svæðinu, þeirra á meðal Sádi-Arabíu en ríkin tvö elduðu leng samani grátt silfur.