Pútín hikar ekki við að beita öllum brögðum við varnir

epa10195727 Russian President Vladimir Putin addresses an event marking the 100th anniversary of the republic of Adygea, Kabardino-Balkaria and Karachay-Cherkessia, at the State Kremlin Palace in Moscow, Russia, 20 September 2022.  EPA-EFE/KONSTANTIN ZAVRAZHIN / SPUTNIK / KREMLIN POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL
Vladimír Pútín forseti Rússlands hefur tilkynnt herkvaðningu að hluta til í Rússlandi sem tekur gildi í dag. Tilgangurinn er að frelsa Donbas og vernda Rússland í anda þeirra sérstöku hernaðaraðgerða sem Pútín og stjórnvöld í Rússlandi hafa kallað innrásina í Úkraínu.

Pútín ávarpaði rússnesku þjóðina í morgun. Það er í seinni tíð orðið harla fátítt og hefur ekki gerst síðan 21. febrúar, skömmu fyrir innrás. Til stóð að hann flytti ávarpið í gær en því var frestað eftir tveggja klukkustunda bið.  

Í gær var tilkynnt að á föstudag hæfist kosning meðal íbúa í Luhansk, Donetsk, Zaporizhzhia og Kherson um hvort þeir vildu tilheyra Rússlandi. Pútín lýsti fullum stuðningi við atkvæðagreiðsluna.

„Fæstir sem á þessum svæðum búa vilja vera undir stjórn nýnasista,“ sagði Pútín sem staðhæfði að það væri ekki ætlun Vesturlanda að koma á friði milli Úkraínu og Rússlands heldur hygðust þau granda Rússlandi.

Í þeim tilgangi hafi vesturveldin notað Úkraínumenn sem fallbyssufóður en Pútín sagði það skyldu Rússa að verja þá.

„Vesturlönd hafa farið út fyrir öll mörk í árásargirni sinni gegn Rússlandi sem þau saka um að beita kjarnorku sem kúgunartæki,“ sagði Pútín og bætti við að Rússar hikuðu ekki við að beita öllum mögulegum úrræðum til að verja sig.

Því myndu stjórnvöld leggja til allt það fé sem þurfa þykir til að auka vopnaframleiðsluna.