Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Pútín eyðileggur ekki bara Úkraínu heldur eigið land“

epa10196118 Chancellor of the Federal Republic of Germany, Olaf Scholz delivers his address during the 77th General Debate inside the General Assembly Hall at United Nations Headquarters in New York, New York, USA, 20 September 2022.  EPA-EFE/Peter Foley
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, segir að Vladimír Pútín eyðileggi ekki aðeins Úkraínu með hernaðaraðgerðum sínum heldur ekki síður eigið land. Þetta sagði kanslarinn í ræðu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

„Pútín hættir ekki hernaðarbrölti sínu og heimsvaldastefnu fyrr en honum verður ljóst að sigur í Úkraínu er útilokaður,“ sagði Scholz, sem heitir Úkraínumönnum áframhaldandi hernaðarstuðningi Þjóðverja.

„Það er brýnt að útvega þeim vopn áfram svo hrinda megi innrás Rússa,“ sagði kanslarinn og bætti við að athæfi Pútíns í Úkraínu væri ekki aðeins skelfilegt fyrir Evrópu heldur heiminn allan.

Þar væri Rússland ekki undanskilið. Því hefði fordæming 141 ríkis Sameinuðu þjóðanna, þegar í mars, verið gríðarmikilvæg. 

Í ræðu Receps Tayyips Erdogans, forseta Tyrklands, kom fram krafa á hendur Rússum um að láta þegar af hendi hernumin svæði í Úkraínu. Hann hvatti jafnframt til þess sem hann kallaði virðingarverð endalok innrásar Rússa í landið. 

ÖSE fordæmir fyrirhugaðar atkvæðagreiðslur um innlimun héraða

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu fordæmir fyrirhugaða atkvæðagreiðslu í fjórum héruðum Úkraínu um innlimun þeirra í Rússland. Mat stofnunarinnar er að slíkar atkvæðagreiðslur séu brot á alþjóðalögum. 

Í yfirlýsingu segir að meðan á hernaðarátökum stendur í Úkraínu teljist allar svokallaðar þjóðaratkvæðagreiðslur, skipulagðar eða studdar af öflum sem ólöglega hafa náð yfirráðum á tilteknum svæðum í Úkraínu, brot á alþjóðlegum lögum og skuldbindingum um mannréttindi. Því hafi niðurstöður atkvæðagreiðslnanna ekkert lagalegt gildi. 

Nýr sendiherra Bandaríkjanna í Rússlandi

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur tilnefnt Lynne Tracy sendiherra í Rússlandi eftir að John Sullivan baðst lausnar.

Tracy er þrautreynd í störfum fyrir bandaríska utanríkisþjónustu og er nú sendiherra í Armeníu. Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, tilnefndi hana til þess starfa. Öldungadeild Bandaríkjaþings þarf að staðfesta tilnefningu Tracy sem sendiherra Bandaríkjanna í Rússlandi.