Ólafur Kjartan í aðalhlutverki á Bayreuth-hátíðinni

Mynd með færslu
 Mynd: iceland.is

Ólafur Kjartan í aðalhlutverki á Bayreuth-hátíðinni

21.09.2022 - 14:33

Höfundar

Óperukvöld útvarpsins hefjast nú að nýju og á fyrsta Óperukvöldi verður flutt hljóðritun frá sýningu á Bayreuth-hátíðinni þar sem Ólafur Kjartan Sigurðarson er í aðalhlutverki í óperunni „Rínargullinu“ eftir Richard Wagner.

Það þykir mikill heiður að fá að syngja á Bayreuth-hátíðinni sem sérhæfir sig í Wagner-óperum og var stofnuð af Wagner sjálfum 1876. Ólafur Kjartan fór þar með hlutverk Biterolfs í óperunni „Tannhäuser“ í fyrra, en á þessu ári var hann í mun stærra hlutverki, hann söng eitt aðalhlutverkið í „Rínargullinu“, hlutverk dvergsins Andvara sem heitir Alberich á þýsku.

Byggð á íslenskum fornritum

„Rínargullið“ er fyrsta óperan af fjórum í hinum svonefnda Niflungahring, þríleik með inngangi eftir Richard Wagner. Það tók Wagner u.þ.b. 26 ár að semja allan Niflungahringinn, frá 1848-1874. Hann lauk við fyrstu óperuna, „Rínargullið“, árið 1854, en óperan var þó ekki frumflutt fyrr en 1869 í München. Textann samdi Wagner sjálfur, en byggði hann meðal annars á íslenskum fornritum, svo sem frásögnum af hinum norrænu goðum í Snorra-Eddu, auk þess sem hann notaði sér hið þýska Niflungaljóð frá því um 1200. Í „Rínargullinu“ segir frá því þegar Niflungurinn Andvari hittir hinar fögru Rínardætur sem halda vörð um undursamlegt gull í ánni Rín. Ef hringur er smíðaður úr gullinu færir hann eigandanum ótakmörkuð völd, en enginn getur smíðað hringinn nema sá sem afneitar ástinni um alla eilífð. Þetta gerir Andvari, hann rænir gullinu frá Rínardætrum og smíðar úr því Niflungahringinn. Þegar Óðinn og Loki ræna hringnum frá Andvara leggur hann bölvun á hringinn og hlýst af því mikil atburðarás.

Afmæli tveggja tónskálda.

Á Óperukvöldum vetrarins verður minnst tveggja tónskálda sem eiga stórafmæli á árinu. Annar þeirra er César Franck, en 200 ár eru liðin frá fæðingu hans árið 1822. Flutt verður óperan „Hulda“ eftir Franck, verk sem var frumflutt 1894 og er byggt á leikriti eftir Henrik Ibsen, en heyrist afar sjaldan. Enska tónskáldið Ralph Vaughan Williams fæddist 1872 og eru því 150 ár liðin frá fæðingu hans. Eftir hann verður flutt gamanóperan „Sir John in love“ sem er byggð á leikritinu „Vindsórkonurnar kátu“ eftir Shakespeare. Óperan er frá árinu 1929 og í henni má m.a. heyra fræga útsetningu Vaughan Williams af enska þjóðlaginu „Greensleaves“.

Íslendingar í óperum erlendis

Fleiri Íslendingar en Ólafur Kjartan Sigurðarson koma við sögu á Óperukvöldum vetrarins. Sópransöngkonan Elísabet Einarsdóttir fer með hlutverk Aspasíu í sýningu Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn á óperunni „Mitrídates konungur af Pontus“ eftir Mozart og bassasöngvarinn Kristján Jóhannesson fer með hlutverk í óperunni „Salóme“ eftir Richard Strauss sem hljóðrituð var á Aix-en-Provence-hátíðinni í sumar.

Óperukvöld útvarpsins 2022-2023

Fim. 22. sept.

Rínargullið eftir Richard Wagner  

Hljóðritun frá sýningu á Bayreuth-hátíðinni 31. júlí sl.

Í aðalhlutverkum:

Óðinn: Egils Silinš.       

Andvari: Ólafur Kjartan Sigurðarson.

Frigg: Christa Mayer.

Þór: Raimund Nolte.

Loki: Daniel Kirch.

Jörð: Okka von der Damerau.

Hljómsveit Bayreuth-hátíðarinnar;

Cornelius Meister stjórnar.

Fim. 6. okt.

Hulda eftir César Franck

Hljóðritun frá tónleikum í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli tónskáldsins í Fílharmóníuhöllinni í Liège 15. maí sl. Óperan er byggð á leikritinu „Halta Hulda“ eftir Henrik Ibsen.

Í aðalhlutverkum:

Hulda: Jennifer Holloway.

Guðrún: Véronique Gens.

Eyjólfur: Edgaras Montvidas.

Guðleikur: Boris Pinkhasovich.

Namur-kammerkórinn og Konunglega fílharmóníusveitin í Liège;

Gergely Madaras stjórnar.

Fim. 10. nóv.

Mitrídates konungur af Pontus eftir Wolfgang Amadeus Mozart

Hljóðritun frá sýningu Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn 24. apríl sl.

Í aðalhlutverkum:

Mitrídates: Stuart Jackson.

Aspasía: Elísabet Einarsdóttir.

Sífares: Emöke Bárath.

Hljómsveitin Concerto Copenhagen leikur;

Lars Ulrik Mortensen stjórnar.

Fim. 15. des.

Sir John in love (Herra Jón ástfanginn) eftir Ralph Vaughan Williams

Hljóðritun frá árinu 2001, flutt í tilefni af 150 ára fæðingarafmæli tónskáldsins.

Í aðalhlutverkum:

Herra Jón Falstaff: Donald Maxwell.

Frú Vað: Sarah Connolly.

Frú Pák: Laura Claycomb.

Sinfóníukórinn og hljómsveitin „Northern Sinfonia“;

Richard Hickox stjórnar.

Fim. 5. janúar 2023

Capriccio eftir Richard Strauss 

Hljóðritun frá sýningu Ríkisóperunnar í Vín 30. júní á liðnu ári.

Í aðalhlutverkum:

Greifynjan: Maria Bengtsson.

Greifinn: Morten Frank Larsen.

Flamand, tónskáld: Daniel Behle.

Olivier, skáld: André Schuen.

La Roche, leikhússtjóri. Christof Fischesser.

Clairon, leikkona: Michaela Schuster.

Kór og hljómsveit Ríkisóperunnar í Vín;

Philippe Jordan stjórnar.

Fim. 9. feb. 2023

Aida eftir Giuseppe Verdi  

Hljóðritun frá sýningu í Teatro Real í Madrid, 3. nóv. sl.

Í aðalhlutverkum:

Aida: Krassimira Stoyanova.

Amneris: Jamie Barton.

Radamès: Piotr Beczała.

Kór og hljómsveit Teatro Real;

Nicola Luisotti stjórnar.

Fim. 2. mars

The Turn of the Screw (Tökin hert) eftir Benjamin Britten

Hljóðritun frá sýningu í Béla Bartók-tónleikasalnum í Búdapest 9. sept. sl.

Í aðalhlutverkum:

Kennslukonan: Miah Persson.

Frú Grose: Laura Aikin.

Peter Quint: Andrew Staples.

Ungfrú Jessel: Alison Cook.

Miles: Benjamin Fletcher.

Flóra: Lucy Barlow.

Hátíðarhljómsveitin í Búdapest;

Iván Fischer stjónar.

Lau. 9. apríl

Páskaópera útvarpsins

Tosca eftir Giacomo Puccini 

Bein útsending frá sýningu Metrópólitan-óperunnar í New York.

Í aðalhlutverkum:

Floria Tosca: Angela Gheorghiu.

Mario Cavaradossi: Yuzif Eyvazov.

Scarpia: Željko Lučic.

Kór og hljómsveit Metrópólitan-óperunnar;

Domingo Hindoyan stjórnar.

Fim. 4. maí    

Salóme eftir Richard Strauss    

Hljóðritun frá sýningu á Aix-en-Provence-hátíðinni 22. júlí í fyrra.

Í aðalhlutverkum:

Salóme: Elsa Dreisig.

Jóhannes: Gabor Bretz.

Heródes: John Daszak.

Heródías: Angela Denoke.

Íslenski bassasöngvarinn Kristján Jóhannesson fer með hlutverk fyrsta Nasarea í óperunni. Parísarhljómsveitin leikur; Ingo Metzmacher stjórnar.

Lau. 27. maí

Hvítasunnuópera útvarpsins

Don Giovanni eftir Wolfgang Amadeus Mozart

Hljóðritun frá sýningu Metrópólitan-óperunnar í New York 20. maí sl.

Í aðalhlutverkum:

Don Giovanni: Peter Mattei.

Donna Anna: Federica Lombardi.

Donna Elvíra: Ana María Martínez.

Zerlína: Ying Fang.

Leporello: Adam Plachetka.

Kór og hljómsveit Metrópólitan-óperunnar;

Nathalie Stutzmann stjórnar.

Fim. 1. júní.

Ofviðrið (La Tempesta) eftir Ludovic Halévy

Hljóðritun frá Óperuhátíðinni í Wexford á Írlandi 3. nóv. sl.

Í aðalhlutverkum:

Míranda: Hila Baggio.

Ferdínand: Giulio Pelligra.

Prosperó: Nikolay Zemlianskikh.

Kór og hljómsveit Wexford-hátíðarinnar;

Francesco Cilluffo stjórnar.

Rínargullið eftir Wagner verður flutt á Óperukvöldi útvarpsins fim. 22. Sept. kl. 19.00.