„Hvað er eiginlega í gangi í Þjóðleikhúsinu?“

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

„Hvað er eiginlega í gangi í Þjóðleikhúsinu?“

21.09.2022 - 09:22

Höfundar

„En það ætti að vera hverjum sem les handritið ljóst að sá punktur kemst ekki í gegn, engin raunveruleg valdefling á sér stað og verkið er eintóm froða, uppfull af illa skrifuðum persónum og klisjukenndri framsetningu,“ skrifar leikhúsgagnrýnandi Víðsjár um söngleikinn Sem á himni.

Nína Hjálmarsdóttir skrifar:

Tilhlökkunin liggur í loftinu á frumsýningu söngleiksins Sem á himni á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu, enda hefur miklu verið tjaldað til, bæði í umbúnaði og flutningi. Sjálf er ég alræmdur sökker fyrir söngleikjum, stórum dansnúmerum og óðs til heterónormatívrar sannrar ástar sem lifir dauðann og eftir að hafa séð plaggatið fyrir sýninguna er ég ekki lítið spennt fyrir svona „feel good“ sveitarómans-söngleik. Í leikskránni má lesa í viðtölum við aðstandendur sýningarinnar hvað verkið eigi ríkt erindi við okkur, verk um fólk í litlu samfélagi sem þráir lífsfyllingu. Ég halla mér aftur í sætið, tilbúin að láta skemmta mér með dásamlegri tónlist og hjartnæmum sögum.  

Snillingur snýr heim í smábæinn

Söngleikurinn Sem á himni er byggður á sænsku kvikmyndinni Så som i himmelen frá árinu 2004. Hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna í flokki erlendra kvikmynda. Höfundar bíómyndarinnar og líka söngleiksins, sem var fyrst settur upp árið 2018 í Stokkhólmi, eru þau Kay og Carin Pollok en höfundur tónlistar er Fredrik Kempe. Leikstjóri sýningarinnar í Þjóðleikhúsinu er Unnur Ösp Stefánsdóttir og þýðingin er í höndum Þórarins Eldjárns.  

Í upphafi verksins kynnumst við aðalpersónunni, honum Daníel, sem leikinn er af Elmari Gilbertssyni óperusöngvara. Hann flytur aftur í bæinn sem hann ólst upp í, Ljósuvík, en hann var lagður í hrottafullt einelti þar sem barn. Nú er hann orðinn heimsfrægur tónlistarvirtúós en heilsu hans hrakar hratt. Hann festir kaup á húsi grunnskóla bæjarins en það er þarna sem sagan í söngleiknum raunverulega hefst. Hvað býr að baki þessum ákvörðunum Daníels er alls óljóst. Ef það á að vera vegna heilsubrests þá er það ekki skýrt hvers vegna. Bæjarbúar í Ljósuvík eru sýndir sem einfalt fólk, ómenntað og gegnumgangandi heimskt. Konurnar eru með stjörnur í augunum yfir sjarmerandi heimsborgaranum á meðan karlmönnunum finnst þeim stafa af honum ógn. Áður en langt um líður er Daníel orðinn kórstjóri kirkjukórs bæjarins. 

Sjarmerandi bjargvættur frelsar fábrotið fólk

Í bænum ríkir mikil ofbeldismenning og þeir sem ekki beita ofbeldinu sjálfir eru meðvirkir gagnvart því. Addi er óþolandi hrokagikkur sem leggur minnimáttar í einelti; Doddi, sem er fatlaður ungur maður, er stöðugt niðurlægður af bæjarbúum; og konur bæjarins eru sífellt drusluskammaðar. Grófast er þó ófilterað heimilisofbeldið á heimili þeirra Konna og Gabríellu, þar sem Konni, í túlkun Kjartans Darra Kristjánssonar, lúber Gabríellu konuna sína hvað eftir annað, leikna af Valgerði Guðnadóttur, á meðan bæjarbúar líta undan. Gabríella finnur skjól í kórnum og á endanum nær hún að brjótast undan eiginmanninum. 

Sagan gengur út á að sýna hvernig Daníel menntar bæjarbúa um gildi listarinnar og hjálpar fábrotnu fólki þannig að finna tilgang í sínu einfalda lífi. Daníel er tákn siðmenningarinnar, hinn gáfaði sjarmerandi bjargvættur sem kennir þessum villimönnum úti á landi að hegða sér, og „opnar hjarta þeirra með tónlistinni,“ svo vitnað sé í verkið. Hann hefur aðgang að tónlistinni sem enginn annar hefur, hann hefur þessa náðargáfu sem hann deilir með landsbyggðarhyskinu af örlæti sínu.  

Andlaus tónlist skilur lítið eftir sig

Tónlistin í verkinu einkennist af ballöðu-sönglögum eins og svo oft eru í söngleikjum og Disney-kvikmyndum, reyndar með örlitlum keim af sænskri þjóðlagahefð. Útsetningarnar eru vel gerðar en tónskáldið hefur haldið sig við formúluna með dæmigerðum hljómagangi og fyrirséðum upphækkunum á milli tóntegunda. Inn á milli koma grípandi kaflar en í raun er ekkert gert til brjóta upp hefðina, hvað þá að persónum sé ljáð einhver sérstaða með tónlistinni. Tónlistin er ágæt þannig séð en fullkomlega andlaus og skilur ekkert eftir sig. – Ég gæti ekki raulað stef úr sýningunni þótt líf mitt lægi við. 

Í þessari uppfærslu hefur öllu verið teflt fram til að búa til veislu fyrir augu og eyru með fínustu þýðingu Þórarins Eldjárns og miklu úrvalsliði leikara ásamt hágæða lifandi hljómsveit undir stjórn Jóns Ólafssonar. Sviðsmyndahönnun Ilmar Stefánsdóttur er realísk framsetning á samkomusal í smábæ á landsbyggðinni. Lýsingin stendur fyrir sínu og búningar Filippíu I. Elísdóttur eru bæði tímalausir og hversdagslegir; þeir ýta undir ímynd einfalds vinnandi fólks í lúðalegum lopaklæðnaði og flíspeysum. Sviðshreyfingar Lee Proud ná að skapa gott flæði á milli sena en annars var nýtingin á dönsurum verksins frekar lítil. Fyrir utan einstaka hopp yfir sviðið og snúninga fengu þau voða lítið að gera. 

Skrítin togstreita

Þegar realískri sænskri bíómynd um ofbeldismenningu í smábæ er slengt saman við söngleikjaformið þá skapast skrítin togstreita. Gabríella mætir í partý hjá kórnum eftir að hafa verið lúbarin af eiginmanni sínum, með glóðarauga og útötuð í blóði. Viðbrögð hennar og hópsins við þessum aðstæðum er að brjótast út í söng um lífsviljann og vináttuna. Hérna er ætlunin líklegast að mála upp sterka mynd af þolanda ofbeldis en í staðinn gerir söngleikurinn lítið úr áfallinu sem augsýnilega hefur átt sér stað. Útkoman er sú, að ofbeldið virðist vera léttvægt, eins og það sé ekkert mál að vera stöðugt barin í spað. Ofan á þetta vekur ákvörðun leikstjórans um að sýna sjálfan ofbeldisverknaðinn ennþá fleiri spurningar. Hver eru áhrif þess að pína áhorfandann sem grípur fyrir augun af óþægindum, eða hefði verið hægt að taka aðra nálgun, kannski gefa í skyn eða láta hluti gerast utansviðs?  

Áhorfendum ekki treyst

Almennt má segja að það setji mark sitt á handritið hversu lítið traust höfundar hafa á skilningsgetu áhorfandans, að hann geti ekki munað eftir atvikum sem gerðust fyrr í sögunni eða geti ekki lesið í aðstæður. Dæmi um þetta er í samskiptum prestsfrúarinnar Inger, sem Katrín Halldóra Sigurðardóttir leikur eftirminnilega, við manninn sinn hann séra Stefán, í túlkun Hinriks Ólafssonar. Seint í verkinu öskrar hún á prestinn að óánægja hans með Daníel hafi ekkert með Daníel að gera, heldur minni Daníel hann of mikið á hann sjálfan þegar hann var ungur hugsjónamaður. Ef handritið væri nógu sterkt ættu áhorfendur sjálfir að geta áttað sig á þessum undirtexta um innra líf persónu prestsins.  

Á sama tíma og margt er ofútskýrt í uppsetningunni, eru samt lykilatriði sem virka óljós og jafnvel óskiljanleg, og fær maður á tilfinninguna að stórum pörtum hafi verið hent úr handritinu á kostnað heillegrar persónusköpunar.  

Nær að vekja neista þegar að áhorfendum leiðist sem mest

Eina persónan í verkinu sem gefið er rými til þróunar; að hafa upphaf, miðju og lokapunkt; er aðalpersónan hann Daníel, en samt er óskýrt hvers vegna hann var að koma aftur til Ljósuvíkur, hvað það er sem lætur hann tileinka líf sitt þjálfun kórsins, og í lok verksins er áhorfandinn skilinn eftir með ótal spurningar um endalok hans. Fyrir utan Daníel fær ein persóna nokkuð skýrt ferðalag í verkinu, persóna Adda sem leikinn er af Guðjóni Davíð Karlssyni eða Góa. Hann er staðalímynd landsbyggðar-eineltisseggs sem horfist í augu við afleiðingar gjörða sinna og reynir að vera betri maður, og nær blæbrigðarík túlkun Góa að vekja smá neista í sögunni þegar áhorfendum leiðist sem mest.  

Aðrar persónur eru óskýrar og enginn veit hvað verður um þær enda er ekki úr miklu að moða. Sem dæmi má nefna aftur prestsfrúna í túlkun Katrínar Halldóru, sem þó tekst með einskærum hæfileikum sínum að tengjast áhorfendum þrátt fyrir handritið. Hennar þróun í verkinu á að sýna hvernig hún stendur með sjálfri sér þrátt fyrir kúgun eiginmanns síns, og trúarlegt ofstæki hans, sem kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti inn í söguna. En síðasta setningin hennar í verkinu er: ,,Ég veit það ekki Stefán”, þegar hún fer frá honum til að taka þátt í kórakeppni í Austurríki með kórnum, og áhorfendur eru skildir eftir með engar upplýsingar um örlög prestsfrúarinnar. 

Persónur fjara út í tómið

Þarna er hópur af leikurum sem maður rétt sér bregða fyrir nokkrum sinnum, og eru meira eins og bakgrunnsskreytingar, en ég ímynda mér að hlutverk þeirra hafi verið skert gríðarlega. Annars væru þau varla á sviðinu. Aðrir meðlimir kórsins, eins og hin bælda Sif eða ástarleitandi Olga, fá áhugaverða kynningu í byrjun sem fjarar síðan út í tómið. Þegar líður að lokum verksins koma hádramatísk augnablik sem passa ekkert inn í heildarmyndina, eins og þegar persóna Lenu, ástarviðfang Daníels, í túlkun Sölku Sólar Eyfeld, er úthrópuð sem bæjardruslan en ekkert hefur bent til þess í handritinu hingað til.  

Kvenpersónur verksins myndu aldrei komast í gegnum fyrsta hluta Bechdel-prófsins. Þær eru flatar, hafa ekkert vald eða sjálfstæði, og virðast hafa þann eina tilgang í verkinu að vera annað hvort fórnarlömb eða hlutgervingar fyrir þrá karlmannsins. Persóna Gabríellu, sem þolandi heimilisofbeldis, er þarna til að varpa hetjuljóma á Daníel þegar hann reynir að bjarga henni frá ofbeldi Konna mannsins hennar, og persóna Lenu er einstaklega góð Manic Pixie draumastelpa, hylki fyrir fantasíur karlmanna, dularfulla „öðruvísi“ stelpan sem er svo hjartahlý að hún er þess virði fyrir Daníel að opna sig fyrir. Söngstíll aðalpersónanna tveggja, Elmars og Sölku Sólar, er mjög ólíkur og þó að þau séu góð hvort í sínu lagi þá verður samband þeirra aldrei trúverðugt vegna þessa. Auk þess minnir Daníel frekar á pabba hennar en elskhuga, sem skrifast ekki einungis á aldursmun heldur hvernig hún túlkar Lenu smástelpulega og hann túlkar Daníel sem þjáða listamanninn með allt á herðum sér. Önnur pör voru líka ótrúverðug, að Katrín Halldóra sem prestfrúin gæti munað eftir því þegar presturinn var ungur stenst ekki, og Kjartan Darri sem Konni virkaði ekki sem jafnaldri Daníels og eiginmaður Gabríellu. 

Neikvæðar staðalmyndir fatlaðra

Það er einn karakter í verkinu sem þarf að ræða sérstaklega, persónan Doddi sem er fatlaður en hann er leikinn af hinum ófatlaða leikara Almari Blæ Sigurjónssyni, einum eftirtektarverðasta leikara landsins um þessar mundir. Það er aldrei tekið fram í verkinu, og því þarf að geta í eyður, en Doddi virðist vera einhverfur eða með einhvers konar þroskafrávik, ásamt því að vera með hamlanir í líkamlegri færni og er því að mér virðist fjölfatlaður. Með þessu hefur Þjóðleikhúsið ákveðið að gera það sem kallast á ensku cripface, þegar ófötluð manneskja leikur manneskju með sýnilega fötlun. Hugtakið hefur orðið meira og meira áberandi í umræðunni um birtingarmyndir fatlaðs fólks í leikhús- og kvikmyndaiðnaðinum. Þessi gjörð, að sviðsetja cripface, gefur til kynna að fötlun sé hluti af sjálfsmynd sem er hægt að setja á sig tímabundið til að skemmta öðrum og minnir þannig á mun þekktara hugtak, blackface, þegar hvít manneskja málar sig dökka til að leika svarta manneskju. 

Það er greinilegt að hinar persónurnar eru vanar að taka Dodda aldrei alvarlega og ýta honum til hliðar en samt tekst honum að komast að, syngja fyrir Daníel og sanna þannig erindi sitt í kórnum. Þrátt fyrir það tala hinar persónurnar við hann eins og hann sé barn. Hápunktur niðurlægingar Dodda er þegar hann pissar á sig fremst á sviðinu og Lena þarf að hjálpa honum að skipta um föt, atriði sem gerir ekkert fyrir framgang sögunnar og hefði verið auðvelt að sleppa. Auk þess er augljóst að hann er ástfanginn af Lenu en sú ást fær ekkert vægi í verkinu heldur er gert lítið úr henni eins og hann sé ekki fullorðinn maður sem sé fær um að hafa tilfinningar. Tilgangur hans í verkinu virðist annars vegar vera sá að veita svokallaðan gamanlétti eða comic relief, og hins vegar láta áhorfandanum þykja vænt um Lenu með því að sýna honum hversu góð hún er við Dodda svo að áhorfandinn haldi með ást Daníels og Lenu. Áhorfandinn sér hvernig Lena hleypur alltaf til þegar Doddi fer úr jafnvægi og reynir að róa hann niður, klappar honum á kollinn, strýkur á honum kinnarnar og talar við hann eins og kettling. Eins og í laginu „Segðu orðin þrjú” þar sem hún syngur til hans; „Komdu til mín, sæti góði fíni Doddi, komdu nú”.  

Ég talaði við Rannveigu Traustadóttur, prófessor emeritus í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands um karakter Dodda en hún hafði ekki enn séð sýninguna. Í samtali okkar nefndi hún að til væru dæmi um að ófatlaðir leikarar gerðu fatlaðri persónu góð skil á sviði eða kvikmyndum. Hún nefndi líka að fatlað fólk hefði lengi gagnrýnt það að fatlaðir leikarar gengju atvinnulausir á meðan ófatlað fólk léki fatlaðar persónur með misjöfnum árangri. Ég hef nýlega orðið vör við að þessar raddir eru að fá áheyrn, til dæmis réð Royal Shakespeare Company í Bretlandi ráða fatlaðan leikara til að leika Ríkharð þriðja, á meðan ríkisleikhús í Þýskalandi hafa bætt fötluðum leikurum á leikaraskrá sína.  

Það er lögmætt að spyrja spurningarinnar af hverju Þjóðleikhúsið fann ekki fatlaðan leikara til að  túlka hlutverk Dodda, þar sem það er lítið mál að finna fatlaðan einstakling hér á landi sem getur sungið og leikið. En þegar litið er til þess hvernig karakter Dodda var sýndur á sviði, sem hefur þá  með handrit og leikstjórn að gera, þá verður spurningin mun meira knýjandi. Hér er persóna sem ýtir undir neikvæðar staðalímyndir um fatlað fólk sem eilíf börn sem eru upp á aðra komin. Sem vekur síðan upp spurninguna um hvaða samtal liggur að baki þessari ákvörðun? Og hvaða rannsókn átti sér stað í æfingaferlinu? Er þetta stefna Þjóðleikhússins, okkar helstu menningarstofnunar, þegar kemur að hlutverkaskipan og birtingarmyndum minnihlutahópa? 

Klisjukennd framsetning á illa skrifuðu handriti 

Ég get ímyndað mér að ferlið að þessari uppfærslu hafi byrjað með einhverri hugsjón um að tækla meðvirknina sem á sér stað í litlum samfélögum. En það ætti að vera hverjum sem les handritið ljóst að sá punktur kemst ekki í gegn, engin raunveruleg valdefling á sér stað og verkið er eintóm froða, uppfull af illa skrifuðum persónum og klisjukenndri framsetningu.

Hvernig komst þetta verk í gegnum mörg ár í covid og marga fundi og allt það klára fólk sem þarna starfar? Hvað er eiginlega í gangi í Þjóðleikhúsinu? Hvernig er það, stendur enginn vörð um að svona gerist ekki? Hver er eiginlega tilgangurinn? Hvað á þetta að segja okkur áhorfendum?  Hvers vegna var þetta verk valið inn sem stóra haustuppfærsla Þjóðleikhússins? Eru engir ferlar eða krítería í leikritavali sem tryggja að nærgætni sé gætt gagnvart birtingarmynd fólks sem hefur sögulega verið ósýnilegt á sviði? Og hvort handritið sé eitthvað meira en innantómar klisjur? Verk sem ekki aðeins niðurlægir minnihlutahópa, og gerir lítið úr landsbyggðinni, heldur byggist á svo augljóslega illa skrifuðu handriti, að mig langar helst að stofna til mótmæla um að fá handritin heim, semsagt þetta handrit aftur heim til Svíþjóðar, takk.  

Nína Hjálmardóttir flutti pistil sinn, í styttri útgáfu, í Víðsjá á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Dans

Listin að njóta sín í bílakjallara í Hamraborg

Leiklist

Shakespeare hefur aldrei verið svona spennandi