Fjölmenn mótmæli í Íran fjórða daginn í röð

epa10195629 Iranian poeple light candles and hold pictures of Iranian Mahsa Amini druing a protest after her death, in Istanbul, Turkey, 20 September 2022. Mahsa Amini, a 22-year-old Iranian woman, was arrested on 13 September by the police unit responsible for enforcing Iran's strict dress code for women and was declared dead on 16 September, after she spent 3 days in a coma.  EPA-EFE/ERDEM SAHIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjölmenni tók þátt í mótmælum víðsvegar um Íran í gær, fjórða daginn í röð, og hrópaði slagorð gegn klerkastjórninni. Kveikja mótmælanna er andlát 22 ára konu í haldi siðgæðislögreglunnar.

Að minnsta kosti þrír létust í mótmælum á mánudag samkvæmt fréttum AFP. Haft er eftir aðgerðarsinnum að tugir eða hundruð hafi særst eftir skothríð öryggissveita auk þess sem fjöldi fólks sé í haldi lögreglu.

Eins hafi táragasi, vatnsfallbyssum og gúmmíkúlum verið beitt á mótmælendur. 

Mahsa Amini lést á föstudaginn, þremur dögum eftir að siðgæðislögregla Írans handtók hana fyrir að hylja ekki hár sitt með slæðu. Fjölskylda hennar segir að lögreglumenn hafi barið hana til bana en lögregla staðhæfir að banamein hennar hafi verið hjartaáfall. 

Mótmælin hófust í Kúrdistan, heimahéraði Amini, og hafa dreifst um landið og til helstu borga. Mótmælin eru þau fjölmennustu frá 2019 þegar Íranar mótmæltu hækkandi olíuverði. Athygli vekur hve margar konur láta nú til sín taka.

Þess eru dæmi að konur hafi tekið af sér slæðuna í andstöðu við stranga löggjöf Írans. Eins er vitað að konur hafa kveikt í slæðunni opinberlega og látið skerða hár sitt.  

Nada Al-Nashif, starfandi framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, krefst umsvifalausrar rannsóknar á andláti Amini og ásökunum á hendur siðgæðislögreglunni um pyntingar og illa meðferð á fólki.