Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Færeyingar meðal þeirra sem menga mest

21.09.2022 - 04:35
Færeyingar eru nánast á pari með helstu olíuframleiðsluríkjum heimsins þegar kemur að kolefnislosun. Þetta kom fram í fyrirlestri haffræðingsins Boga Hansen á ráðstefnu um loftslagsbreytingar í september 2022.
 Mynd: KVF
Færeyingar eru meðal þeirra jarðarbúa sem hvað mest menga umhverfi sitt. Kolefnislosun á hvern íbúa eyjanna er um það bil þrefalt heimsmeðaltal samkvæmt nýrri rannsókn.

Færeyingar eru nánast á pari með helstu olíuframleiðsluríkjum heimsins þegar kemur að kolefnislosun. Þetta kom fram í fyrirlestri Boga Hansen, haffræðings, á ráðstefnu um loftslagsbreytingar og heimsfaraldra. 

KVF fjallar um málið og hefur eftir Hansen að jafnvel þótt Færeyingar skiptu út allri olíukyndingu, rafvæddu bílaflotann og tryggðu græna framleiðslu rafmagns minnkaði það kolefnislosun aðeins um þriðjung.

Færeyjar menguðu þá álíka mikið og Bandaríkin og yrðu áfram meðal þeirra ríkja sem mest menga. Þó má greina á jákvæða þróun á borð við að vatnsorkuframleiðsla jókst í landinu um 500% frá ágúst 2021 til sama mánaðar 2022.

Um það bil þriðjungur allrar raforku í nýliðnum ágúst var framleiddur með vatnsorku, eða um 10,5 gígavött. Fjórðungur raforkunnar kom frá vindorkuverum, sem sömuleiðis er veruleg aukning.

Því kveðst talsmaður ríkisrafveitunnar SEV bjartsýnn á áframhald vaxtar í framleiðslu grænnar orku það sem eftir lifir þessa árs. 

Mynd með færslu
 Mynd: Markús Þ. Þórhallsson