Yfirvöld beita íranska mótmælendur hörku

20.09.2022 - 10:52
Mynd: EBU / EBU
Hávær mótmæli hafa verið víða í Íran síðan á föstudag, þegar yfirvöld tilkynntu andlát hinnar 22 ára Mahsa Amini. Hún lést eftir að hafa verið handtekin af siðgæðislögreglu ríkisins. Hún lá í þrjá daga í dái á sjúkrahúsi eftir að hún var handtekin fyrir að hylja ekki hárið með hijab slæðu sinni. Yfirvöld fullyrtu að hún hafi dáið af völdum hjartaáfalls, en fjölskylda hennar segir hana aldrei hafa átt við nein hjartavandamál að stríða.

Fjölmennt og þungvopnað lið lögreglu hefur mætt mótmælendum af mikilli hörku, svo mörgum þykir nóg um. Meðal þeirra sem lýst hafa óánægju sinni er þingmaðurinn Jalal Rashidi Koochi, en það er verulega fáheyrt að þingmenn andmæli yfirvöldum. Hann sagði siðgæðislögregluna aldrei hafa gert nokkuð annað en að skaða Íran. Helsta vandamálið væri að margir neiti að horfast í augu við þann sannleika, hefur AFP fréttastofan eftir honum.

Lögregla beitti táragasi gegn mótmælendum í heimahéraði Amini í Kúrdistan á sunnudag. Um 500 komu saman þar til að mótmæla samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar. Í gær var meðal annars mótmælt í höfuðborginni Teheran, og segir íranska fréttastofan Fars að lögregla hafi beitt bæði kylfum og táragasi til að tvístra hópi mótmælenda.  Nokkrir mótmælendur voru handteknir, en yfirvöld segja ekkert hæft í fregnum af því að mótmælendur hafi verið drepnir af lögreglu. Myndbönd á samfélagsmiðlum sýna konur á öllum aldri mótmæla um helgina með því að taka af sér slæðurnar og kveikja í þeim.

Al Jazeera fréttstofan greinir frá því að Ebrahim Raisi, forseti Írans, hafi lofað fjölskyldu Amini að rannsaka andlát hennar. Dómsmálaráðuneytið hefur þegar boðað rannsókn og þingnefnd ætlar einnig að skoða málið. Breska dagblaðið Guardian hefur eftir nokkrum írönskum fjölmiðlum að stjórnanda siðgæðislögreglunnar hafi verið sagt upp störfum, en lögreglan í Teheran segir ekkert hæft í þeim fregnum. Guardian segir sneiðmyndir af höfði Amini sýna beinbrot, blæðingu inn á heila og heilabjúg, sem þykir benda til að hún hafi fengið höfuðhögg. 

Allt frá íslömsku byltingunni árið 1979 hafa konur verið neyddar til að bera hijab í Íran. Siðgæðislögreglan sér um að framfylgja því, en hefur undanfarin ár verið gagnrýnt fyrir hörku við störf sín, þá sérstaklega gagnvart ungum konum.