Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Viðurkenna að félagið þarf að gera betur

20.09.2022 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair fundaði í gær með Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra vegna ítrekaðra truflana á innanlandsflugi. Bogi segist meðvitaður um þá hnökra sem hafi verið á þjónustu Icelandair síðustu misseri. 

Undanfarna mánuði hefur ítrekað komið fram óánægja flugfarþega með seinkanir og niðurfellingar á ferðum Icelandair í innanlandsflugi. Bogi flaug til fundar norður á Akureyri í gær. Lára Halldóra Eiríksdóttir, formaður SSNE, segir að fundurinn hafi verið góður og ljóst að Icelandair hafi fullan vilja til að bæta úr ástandinu. 

„Það sem kom út úr þessu fyrir mig er að Icelandair er að horfast í augu við þennan vanda. Þau viðurkenna hann og að þjónustustigið sé alls ekki nógu gott og þau séu langt fyrir neðan sín markmið varðandi áætlun. Mér finnst vera einlægur og ákveðinn vilji hjá þeim til að breyta þessu.“

Lára segir að ekki hafi verið lagðar fram sérstakar kröfur til fyrirtækisins um annað en að þjónusta yrði bætt. Þá þyrfti að bæta upplýsingagjöf til farþega um aflýsingar og seinkanir á flugi.  

„Það var mjög vel tekið í það og þeir hafa nú þegar stigið skref í átt að bættri þjónustu og betri upplýsingagjöf og voru mjög meðvitaðir um að þeir yrðu að bæta þetta fyrir fólk. “

„Vitum að við þurfum að gera betur“

Bogi Nils var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann segir að þjónustan hafi ekki verið eins og félagið vilji hafa hana síðustu mánuði og vikur. Ýmsar ástæður liggi að baki. Meðal annars að viðhaldsskoðanir hafi tekið mun lengri tíma en ætlað var. 

„Við viljum uppfylla væntingar okkar viðskiptavina. Það er það sem við fórum yfir á þessum fundi í gær. Við höfum líka verið að ræða við sveitarstjórnarfólk fyrir austan og vestan og fara yfir þessi mál. Það er mikilvægt að eiga samtal um þessi mál því við viljum þjónusta þennan markað mjög vel.“

Bogi Nils fer á annan fund með austfirsku sveitarstjórnarfólki á föstudag um stöðuna í innanlandsflugi.