Vantar 90 starfsmenn til að fullmanna leikskólana

20.09.2022 - 13:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Enn vantar um 90 starfsmenn á leikskóla í Reykjavík til að skólarnir teljist fullmannaðir. Mönnunarvandi hefur verið ein stærsta áskorun leikskólanna. Rúmlega 500 börn 12 mánaða og eldri bíða enn eftir plássi. 

Búið er að ráða í tæplega 95 prósent stöðugilda á leikskólum hjá Reykjavíkurborg en þó vantar enn þá um 90 starfsmenn til að fullmanna þá. Til samanburðar átti eftir að ráða í 122 stöður 25. ágúst.  Hjördís Rut Sigurjónsdóttir, upplýsingafulltrúi Skóla- og frístundasviðs hjá Reykjavíkurborg segir að ráðningar í leikskólana gangi vonum framar en að þetta sýni hversu mörg stöðugildi eru við skólana.

478 börn, 12 mánaða og eldri eru ekki enn komin með leikskólapláss og 48 börn átján mánaða og eldri. Ef tekin eru með börn sem eru með pláss en hafa óskað eftir flutningi bíða alls 545 börn 12 mánaða og eldri eftir plássi hjá Reykjavíkurborg og 78 börn 18 mánaða og eldri. 

Vantar enn töluvert af fólki á frístundarheimilin

Mönnunarvandinn teygir sig þó víðar en aðeins er búið að ráða í 78 prósent stöðugilda í frístundaheimilum og  sértækum félagsmiðstöðvum borgarinnar og vantar um 60 starfsmenn til að fullmanna þær stöður. 545 börn bíða eftir plássi á frístundaheimilum sem eru töluvert færri en í byrjun mánaðarins þegar rúmlega 900 börn voru ekki komin með pláss. 

„Ráðningar í leikskólana ganga framar vonum og ljóst að þær aðgerðir sem Reykjavíkurborg fór í hafa skilað árangri, svo sem auglýsingar og nýr umsóknarvefur. Ráðningar á frístundaheimili og sértækar félagsmiðstöðvar ganga ágætlega en þær standa yfirleitt yfir fram eftir hausti. Misjafnt er eftir hverfum hvernig gengur að ráða,“ segir Hjördís Rut.