Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þurfa tíu milljarða til að geta náð endum saman

Mynd með færslu
 Mynd: Mikhail Nilov - Pexels
Undanfarin ár hefur halli á rekstri málaflokks fatlaðs fólks aukist og áætla má að árið 2021 hafi hallinn numið um þrettán milljörðum króna. Fulltrúar sveitarfélaga landsins hafa lýst yfir áhyggjum og krefjast úrbóta.

Vilja að ríkið viðurkenni að það þurfi að bæta í

Málaflokkurinn færðist frá ríkinu til sveitarfélaga árið 2011 en hefur síðan þá vaxið ört. Þá hafa mörg sveitarfélög kvartað undan að geta ekki sinnt málefnum fatlaðs fólks nægilega vegna fjárskorts. Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir kostnaðinn hafa þróast á þann veg að nú þurfi sveitarfélögin að fá hann bættan.

„Miðað við forsendurnar sem voru gefnar þegar þessi þjónusta var flutt frá ríki til sveitarfélaga þá vantar töluvert fjármagn til að sveitarfélögin nái endum saman í þessu en auðvitað halda þau úti þjónustunni á meðan að þau hafa hana á sínum snærum en þau vilja bara að ríkið viðurkenni að það þurfi að bæta í og við erum að tala um meira en tíu milljarða sem við þyrftum helst að fá í pakkann til að ná endum saman.“

Taka þarf upplýstar og skynsamar ákvarðanir

Nú hefur félags- og vinnumarkaðsráðherra skipað starfshóp sem á að móta tillögur varðandi kostnað ríkis og sveitarfélaga í þessum málaflokki og er hópnum gert að skila niðurstöðum í byrjun desember. 
Karl vonar að þar verði brugðist við þessum vanda, enda mikilvægt að sveitarfélögin geti sinnt nærþjónustu líkt og þessari.

„Við erum náttúrlega bjartsýn á að menn taki upplýstar og skynsamar ákvarðanir í þessum samningaviðræðum en við vitum svo sem ekki hvernig þetta endar. Við erum búin að halda þessu á lofti og það liggja fyrir hlutlæg gögn sem sanna þessa þróun og við ætlum ríkinu og fulltrúum þess og Alþingi að þeir taki mark á slíku.“