Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Þetta var kona sem lifði alltaf í þjónustu við aðra“

Mynd: Ragnar Santos / RÚV
Íslensku forsetahjónin voru við útför Elísabetar Bretadrottningar í Westminster Abbey í Lundúnum í gær. Eliza Reid forsetafrú segir stundina hafa verið tilfinningaríka.

„Þetta er svo söguleg stund og svo mikill heiður að vera þarna fyrir hönd Íslands. Svo kannski fyrir mig persónulega, af því að ég ólst upp í Kanada og Elísabet drottning var líka drottningin mín. Það var kannski sérstaklega merkilegt fyrir mig að vera þarna.“

Eliza segist ekki geta talað fyrir alla Kanadabúa þegar hún er spurð hvaða þýðingu drottningin hafði fyrir íbúa landsins, sem þjóðhöfðingi þess. Hún bendir þó á að drottningin sé á mynt Kanada og vegabréfum. Hún hafi einhvern veginn alltaf verið til staðar. „Fyrir mig persónulega, þegar það fréttist að hún væri dáin, þá snerti það mig kannski meira en ég hélt að yrði. Þetta var kona sem lifði alltaf í þjónustu við aðra. Þetta er mjög merkilegt.“

Eliza segir að þjónusta sé ef til vill orðið sem henni þyki lýsa arfleifð Elísabetar Bretadrottningar best.