Stefndi alltaf heim á Silfrastaði

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend - Rúv

Stefndi alltaf heim á Silfrastaði

20.09.2022 - 14:30

Höfundar

„Það var aldrei efi í mínum huga að ég ætlaði að enda hér,“ segir Hrefna Jóhannesdóttir um jörðina Silfrastaði í Skagafirði. Þar stundar hún skógarbúskap ásamt Johan Holst eiginmanni sínum. Þau hjónin kynntust í skógfræðinámi í Noregi.

Skógrækt hefur lengi verið stunduð á Silfrastöðum. Fyrstu trjánum plantaði Jóhannes Jóhannsson, faðir Hrefnu í kringum árið 1980. Hann var þá sauðfjárbóndi á Silfrastöðum. Jóhannes hætti með sauðfé 1991 og sneri sér alfarið að skógrækt. Fjallað var um skógræktina á Silfrastöðum og rætt við skógarbóndann Hrefnu í Sögum af landi á Rás 1. 

„Hann þótti náttúrulega alveg galinn á sínum tíma að gera þetta, það hafði nú enginn trú á skógrækt þá,“ segir Hrefna sem tók þátt í að gróðursetja fyrstu árin. Hún sá þó ekki fyrir sér á þeim tíma að leggja skógræktina fyrir sig. Hún hafði meiri áhuga á búfénaði, ætlaði að verða bóndi og jafnvel líka tamningamaður. 

Sá ljósið í Kjarnaskógi

Þau framtíðarplön áttu eftir að breytast. Þegar Hrefna var á síðasta ári í Menntaskólanum á Akureyri var hún viss um að hún yrði aldrei hefðbundinn bóndi. Það var svo í tíma í umhverfisfræði hjá Kristínu Sigfúsdóttur, kennara við MA, að Hrefna fann hvert hún vildi stefna. 

Kennslustundin var úti í Kjarnaskógi þar sem Hallgrímur Indriðason skógarvörður tók á móti hópnum. „Og hann var svo brosmildur og glaður þegar hann tók á móti okkur krökkunum og var að lýsa fyrir okkur að trén í skóginum hefðu vaxið svo vel. Að þetta hefðu bara verið smátré þegar hann byrjaði og nú var þetta orðið skógur. Og þá hugsaði ég með mér: Já, þetta er eitthvað sem ég gæti hugsað mér, ég gæti alveg hugsað mér að rækta skóg.“ Að sjá skóginn sem maður ræktaði og geta þannig horft yfir starfsævina og skilið eitthvað eftir. 

„Þarna sá ég hreinlega bara ljósið og ákvað á þessari stundu að þetta langaði mig líka að gera. Í kjölfarið sótti ég um skógfræði í Noregi.“

Gott skipulag nauðsynlegt

Hrefna og Johan eru bæði skógfræðingar og kynntust í skógfræðináminu við Landbúnaðarháskólann í Ási. Þau tóku við skógarbúskapnum á Silfrastöðum 2017 og nú eru 460 hektarar komnir undir skóg. Hrefna segir að þau hafi fyrst þurft tíma til að átta sig á hvernig þau vildu hafa hlutina og er ánægð með að eiga skipulagaðan mann. 

„Ég er svolítill Íslendingur í því að maður rýkur bara í hlutina þegar maður þarf að gera þá,“ útskýrir hún. Johann hafi komið með allt annan hugsunarhátt inn búskapinn og lagt áherslu á að byrja strax. Það þyrfti að grisja 10 hektara á ári ef þau ættu að komast yfir þetta allt saman. 

Rætt var við Hrefnu Jóhannesdóttur í Sögum af landi á Rás 1. Hér má hlusta á viðtalið í heild sinni í Spilara RÚV.