Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sleppa því að kynda og borða minna fyrir ferðalög

20.09.2022 - 15:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Áhrifa orkukreppu og verðbólgu er ekki farið að gæta í ferðaþjónustu hér á landi. Þá taka sumir ferðamenn ferðalag fram yfir helstu nauðsynjar eins og húskyndingu og mat, samkvæmt framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands.

„Ísland er ekki og mun aldrei verða ódýr áfangastaður“

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, segir fjölda ferðamanna í ár á pari við það sem var árið 2019. Hún segir bókunarstöðuna til landsins líta vel út inn í veturinn, þó blikur séu á lofti í efnahagsmálunum. „Efalaust hefur þetta áhrif, orkukreppan og verðbólgan, Ísland er ekki og mun aldrei verða ódýr áfangastaður þannig það hefur alltaf verið þessi áskorun að fá ferðamenn til þess að kjósa Ísland umfram aðra áfangastaði og þessi áskorun verður bara meiri eftir því sem verðhækkanir koma til vegna orkukreppu og verðbólgu,“ segir Sigríður.

Ýmsu fórnað til að komast í ferðalagið

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir eftirspurnina enn mikla á Norðurlandi. „Það virðist vera í rauninni minni áhrif af efnahagsvanda Evrópu á ferðaþjónustuna en maður gæti ímyndað sér, t.d. á Bretlandi eru ferðamenn enn þá að koma og virðast velja ferðalög fram yfir nauðsynjar, hreinlega slökkva frekar á hitanum hjá sér og borða minna til að komast í ferðalagið sitt.“

Hátekjuferðamennirnir finna fyrir minni áhrifum

Arnheiður segir áhrif efnahagsástandsins og orkukreppu ekki enn orðin áþreifanleg. „Við höfum verið með ferðamenn sem eru yfir meðaltekjum og auðvitað er kreppan að hafa minni áhrif á það fólk þannig að það er kannski ástæðan að við erum að sjá minni áhrif af þessu en maður gæti ímyndað sér,“ segir hún.