Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Skipulögð glæpasamtök á Spáni upprætt

20.09.2022 - 11:44
Mynd með færslu
 Mynd: guardiacivil.es
32 voru handteknir víðs vegar á Spáni í síðustu viku, grunaðir um að tengjast ítölsku mafíunn 'Ndrangheta. Um 500 lögreglumenn tóku þátt í rannsókninni að sögn evrópsku lögreglunnar Europol.

Spænska ríkislögreglan Guardia Civil hóf rannsóknina og vann náið með ítölsku lögreglunni og fjármálaeftirliti Ítalíu, auk þess að njóta aðstoðar Europol. Alls voru gerðar 40 húsleitir í Ibiza, Barselóna, Malaga og Tenerife. 32 voru handteknir, grunaðir um að eiga þátt í umfangsmiklum fíkniefnaviðskiptum og peningaþvætti. Við húsleitirnar fannst kannabisrækt, um 300 þúsund evrur í reiðufé, 18 kíló af amfetamíni, 4,5 kíló af kókaíni, skotvopn og skotfæri.

Í fréttatilkynningu Europol segir að rannsóknin hafi afhjúpað spænskt glæpagengi tengt ítölsku mafíunni 'Ndrangheta. Talið er að spænska gengið hafi flutt kókaín og kannabis á milli Spánar og Ítalíu, og notað til þess farartæki með leynihólfum. Hinir grunuðu eru sagðir hafa beitt ofbeldi til þess að ná sínu fram, þar á meðal pyntingar. Sumir eru sagðir tengjast nokkrum morðum á Ítalíu. Gróðinn af fíkniefnaviðskiptunum var svo notaður til fasteignakaupa á Spáni að sögn Europol.