Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Magnað að upplifa eitthvað sem aðeins sést í sögubókum

Mynd: Ragnar Santos / RÚV
Guðný Ósk Laxdal heldur úti instagramsíðunni Royal Icelander og fylgist grannt með konungsfjölskyldunni. Hún var í Lundúnum í gær vegna útfarar Elísabetar Englandsdrottningar og var afar ánægð með að hafa getað verið þar á þessum sögulega degi.

„Ég er búin að fylgjast með alveg síðan Elísabet dó, og svo bauðst mér tækifæri til að koma hingað fyrir lítinn pening og að vera hérna og upplifa þetta. Þetta er náttúrulega eitthvað sem mun aldrei gerast aftur. Þetta mun aldrei verða svona stórt og þjóðin mun sennilega aldrei bregðast svona mikið við. Þetta er söguleg stund sem er gaman að vera hluti af,“ sagði Guðnýju í viðtali við Ólöfu Ragnarsdóttur fréttamann í Lundúnum í gær.

Var eitthvað sem kom þér á óvart við atburði dagsins og líka síðustu daga?

„Nei, í rauninni ekki. Það sem er kannski búið að koma öllum á óvart, líka fjölmiðlum, er hvað þau hafa verið mikið dugleg að koma fram, konungsfjölskyldan, og hitta fólk. Og þau eru ekki bara að koma og sýna sig, þau eru að taka langan tíma að ræða við fólk og eiga samræður.“

Guðný segir að enginn leiðtogi muni ná viðlíka sessi og Elísabet, en hún segir einstakt að hafa fengið að upplifa andrúmsloftið í Lundúnum í tengslum við útförina.

„Við fórum og fundum okkur stað þar sem við vissum að einhver myndi fara framhjá og biðum þar í smá stund og fengum að sjá kistuna keyra framhjá í þessum líkbíl sem er sérhannaður til að allir geti séð, og sáum kórónuna þarna ofan á. Það var alveg magnað að sjá það.“

Þannig að það stendur upp úr? 

„Algjörlega. Þetta er eitthvað sem maður bara fær að vera í sögubókum og myndum. Það er ótrúlegt að hafa fengið tækifæri til að sjá það,“ segir Guðný Ósk Laxdal.