Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Leggja lokahönd á Íslandsbankaskýrslu

20.09.2022 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Samsett mynd
Ríkisendurskoðandi segir að vinna við gerð skýrslu um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka sé á lokametrunum. Stefnt sé á að skila henni til Alþingis fyrir lok þessa mánaðar. Ólíklegt þykir að hún verði birt opinberlega fyrr en í byrjun næsta mánaðar.

Upphaflega var stefnt á að klára skýrsluna í júní en vinnan hefur reynst umfangsmeiri en gert var ráð fyrir. Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi segir í samtali við fréttastofu að nú sé verið að leggja lokahönd á skýrsluna.

„Væntingar okkar standa til þess að hægt verði að klára skýrsluna fyrir lok þessa mánaðar. Skýrslan er við það að detta í rýni hér innanhúss með gæðaúttekt og innri áreiðanleika,“ segir Guðmundur.

Þegar þeirri vinnu er lokið fer hún í umsagnarferli til fjármálaráðuneytis og Bankasýslu ríkisins. Það ferli kann að taka einhverja daga og mögulega lýkur því ekki fyrr en um miðja næstu viku, eða um eða eftir næstu mánaðamót.

„Okkar úttekt varðar þennan opinbera þátt. Þeir þættir sem snúa að söluráðgjöfum í ferlinu kunna að koma til athugunar hjá fjármálaeftirlitinu,“ segir Guðmundur.

Þegar umsagnarferli er lokið er skýrslan send til forseta Alþingis og þaðan til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem fær skýrsluna til umfjöllunar. Nefndarmenn fá væntanlega nokkra daga til kynna sér innihald skýrslunnar áður en hún er gerð opinber.

Sala ríkisins á 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka var harðlega gagnrýnd eftir að listi yfir kaupendur var gerður opinber og var ítrekað mótmælt á Austurvelli. Þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust þess að sérstakri rannsóknarnefnd á vegum Alþingis yrði gert að fara yfir málið en því var hafnað.