Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Kínverskur geldingur og hinsegin listamaður

Mynd: Norden / Norden

Kínverskur geldingur og hinsegin listamaður

20.09.2022 - 09:13

Höfundar

Bækurnar sem Finnar tilnefna til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs að þessu sinni eru afar ólíkar. Annars vegar er það bókin Eunukki eða Geldingurinn eftir Kristine Carlsson sem er söguleg skáldsaga um gelding við hirð kínverska keisaradæmisins á 12 öld. Hins vegar Röda rummet eða Rauða herbergið eftir Kaj Korkea-aho sem segir frá ungum hinsegin manni sem villist inn í heim BDSM-hneigðar í Helsinki í húsnæðisleit sinni.

Venju samkvæmt tilnefna Finnar eina bók á finnsku og aðra á sænsku til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Þetta hafa Finnar gert öll þau 60 ár sem tilnefnt hefur verið. Sænska er aðeins móðurmál um 5% Finna en þeir halda þrátt fyrir það fast í arfleifð tvímála Finnlands. Finnland hefur hlotið hin mikilsvirtu verðlaun 11 sinnum, sex sinnum fyrir bækur á finnsku og fimm sinnum fyrir bækur á sænsku.  

Bækurnar sem Finnar tilnefna nú eru afar ólíkar. Annars vegar stutt ljóðræn saga, Eunukki eða Geldingurinn eftir Kristine Carlson, sem fjallar um gelding við hirð kínverska norðurkeisaradæmisins í borginni Dongjing um aldamótin 1100. Hin bókin er borgarsaga beint úr samtímanum, Röda rummet eða Rauða herbergið eftir Kaj Korkea–aho sem segir frá 29 ára samkynhneigðum karlmanni sem í húsnæðisvandræðum sínum auglýsir sig reiðubúinn til að skrifa bók í býtum fyrir íbúð. Þetta gengur eftir en fleira fylgir með í kaupunum.  

Rætt var við Pietari Kymälä í Orð um bækur á Rás 1 um bækurnar sem tilnefndar eru fyrir hönd Finnlands að þessu sinni. Kymälä er menningarblaðamaður á finnska ríkisútvarpinu, YLE.  

Tímalausar hugleiðingar aldraðs geldings 

Kristine Carlson er þekktur og virtur rithöfundur í Finnlandi. Hún sendi síðast frá sér skáldsögu fyrir 10 árum og margir aðdáendur hennar höfðu því beðið nýrrar bókar af mikilli eftirvæntingu. Sagan Geldingurinn eða Eunukki fékk þó ekki svo mikla athygli, sem Pietari segir að hafi vakið sér undrun. Hann telur að ef til vill geti fjarlægð söguefnisins, bæði í landfræðilegum og sagnfræðilegum skilningi, verið um að kenna. Bókin hafi fengið framúrskarandi dóma en náði þrátt fyrir það ekki nægilega vel til lesenda.  

Mynd: Otava / Tuni.fi

Sagan Geldingurinn gerist í Kína árið 1120. Það er geldingurinn Wang Wei sem segir frá sjötugur að aldri. Hann kom til hirðarinnar þegar foreldrar hans seldu hann og bróður hans til undanskurðar en bróðir hans lifði aðgerðina ekki af. Wang Wei lifði allt sitt líf í höllinni og fylgdist grannt með öllu. Nú er hann orðinn gamall, hefur horft á eftir vinum sínum yfir móðuna miklu og unir sér við þá iðju að lesa og skrifa. Hann rifjar upp ævi sína þar sem hann hefur þjónað fimm keisurum. Hér segir frá manneskju sem aldrei hefur kennt ofsa ástarinnar eða sorgar, aðeins jafnlyndis milli leiða og vellíðunar. Hann hefur aldrei tekið ákvarðanir heldur fylgst með á jaðrinum af brennandi áhuga. Þrátt fyrir valdaleysi sitt hefur Wang Wei fylgst grannt með valdabrölti við hirðina þar sem kynjaskipting er undirliggjandi og það er ekki síst kynleysi aðalsögupersónunnar og greinandi sjónarhorn hennar á kynjaskiptingu umhverfis síns sem gefur sögunni skírskotun til samtíma okkar.  

Í þessari skáldsögu kannar Kristina Carlson einsemdina, mennskuna og tengsl einstaklingsins við samfélagið. Hinn fjarlægi tími og staður sögunnar hefur framandgerandi áhrif og undirstrikar tímaleysi þeirra hugleiðinga sem leita á hinn aldraða gelding. Tær og nákvæmur stíll Carlson er ljóðrænn, oft svo að minnir á spakmæli, og svipmyndirnar sem hún bregður upp minna á kínversk ljóð eða tréskurðarmyndir.

Úr umsögn dómnefndar.

Pietari segir höfund halda sig innan þeirra sögulegu marka sem hún setur sögu sinni. Wang Wei gekkst undir óafturkræfa aðgerð sem hann hafði ekkert um að segja og því er sjónarhorn hans á kynjakerfið einstakt. Það afhjúpar valdakerfi keisarahirðarinnar í tólftu aldar Kína og hlutlaust gagnrýnisauga hans vekur gagnrýnar spurningar. Stíll sögunnar er hnappur sem er einkennandi fyrir verk Kristinu Carlson. Textinn gerir kröfur til lesenda með undirliggjandi merkingarauka.  

Hinsegin kreðsa Helsinki í brennidepli 

Hin bókin sem Finnar tilnefna, Röda rummet, Rauða herbergið, eftir Kaj Korkea-aho er af öðrum meiði. Aðalpersóna bókarinnar er 29 ára samkynhneigður maður sem segir í fyrstu persónu frá lífi sínu í Helsinki. Hann er nýfluttur heim frá Berlín og hefur dvalið heima hjá föður sínum en kann illa við að vera aftur kominn í föðurhús langt frá iðandi skemmtanalífi Helsinki. Hann afræður því að setja auglýsingu í dagblað þar sem hann segist tilbúinn að skrifa bók í skiptum fyrir 30 fermetra íbúð í Suður-Helsinki. Aldraður herramaður tekur þessu tilboði og áður en ungi sögumaðurinn veit af er hann kominn í flókið samband við velgjörðarmann sinn sem snýst um traust og kynferðisblæti.  

Texti Korkea-ahos ögrar markvisst mörgum af hugmyndum samtímans um vald og undirtök, fullnægðar langanir og losta, án þess þó að leiðbeina eða veita skýr svör. Skáldsagan nálgast langanir persónanna af hreinskilni og hluttekningu og hringsólar af næmni í kringum hinar leyndardómsfullu og mótsagnakenndu birtingarmyndir lostans.

Úr umsögn dómnefndar.

Pietari segir söguna Rauða herbergið vissulega fjalla um sambönd en þó fyrst og fremst um borg. Sögumaður dregst inn í BDSM-tilveru húseigandans og lesendur ferðast inn í sögusvið hinsegin borgarinnar Helsinki. Hann segir bókina velta upp stórum spurningum um völd og segja með hlutlausum hætti frá kreðsum samkynhneigðra í borginni án þess að fella dóma. Pietari segir að honum hafi þótt frískandi hvernig ástum, kynlífi og öðrum skemmtunum í lífi samkynhneigðra sé lýst eins og hverju öðru sem á sér stað í stórborginni.  

Rætt var við Pietari Kymälä í Orð um bækur á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Einfaldar myndabækur með margslunginn boðskap

Bókmenntir

Tímanum teflt fram

Bókmenntir

Samband kynslóðanna í Færeyjum