„Guðfaðirinn“ kallar konurnar þrjár svikakvendi

20.09.2022 - 07:50
Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV
Hjörleifur Hallgríms, sem hefur verið kallaður guðfaðir framboðs Flokks fólksins á Akureyri, segist íhuga að stefna þremur konum í flokknum fyrir meiðyrði. Konurnar blésu til blaðamannafundar með stuttum fyrirvara í gær þar sem ein þeirra sagði Hjörleif hafa sóst eftir að eiga kvöldstund með henni og látið þau orð falla að hann legði ekki hendur á konur nema í rúminu.

Ekkert gengur að bera klæði á vopnin í illdeilum innan Flokks fólksins á Akureyri heldur magnast ófriðarbálið með degi hverjum. 

Í gær blésu þrjár konur, allt varabæjarfulltrúar flokksins, til blaðamannafundar þar sem þær lýstu samskiptum sínum við Brynjólf Ingvarsson oddvita, Jón Hjaltason og Hjörleif Hallgríms sem var kosningastjóri og skipaði heiðurssæti á listanum.

Þær Málfríður Þórðardóttir, Tinna Guðmundsdóttir og Hannesína Scheving lýstu því á fundinum hvernig samskiptin við karlforystuna hefðu valdið þeim mikilli vanlíðan. „Við sáum engin önnur ráð en að óska eftir hjálp frá forystu Flokks fólksins sem hefur reynst okkur ómetanlegur stuðningur,“ sagði Málfríður á fundinum.

Jón og Brynjólfur hafa báðir vísað öllum ásökunum á bug og krafist þess að þeir verði beðnir afsökunar.

Og nú hefur Hjörleifur ritað grein á vef Akureyri.net sem lægir líklega ekki öldurnar. Hann fer vægast sagt hörðum orðum um konurnar þrjár, kallar þær svikakvendi og upphlaupsmanneskjur.

Hann segist með réttu vera kallaður guðfaðir listans.  Hann hafi rætt persónulega við allt það fólk sem var á honum fyrir utan konurnar þrjár. 

Hann kveðst vera íhuga alvarlega að stefna konunum fyrir meiðyrði og segir að ef til vill fái þau Inga Sæland, formaður flokksins, og Guðmundur Ingi Kristinsson, varaformaður, að fljóta með. Þau hafi tekið dyggilega undir ósómann.