Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fólk með þroskahömlun fær enn ekki rafræn skilríki

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir
 Mynd: Þór Ægisson
Þroskahjálp hefur barist fyrir því í rúm þrjú ár að fundin verði lausn fyrir fólk með þroskahömlun sem getur ekki sótt um rafræn skilríki. Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir verkefnastjóri hjá samtökunum segir að neyðarástand ríki en vegna þess að um jaðarsettan hóp sé að ræða sé málinu sýndur lítill áhugi.

Þroskahjálp hefur ítrekað bent stjórnvöldum á að finna þurfi aðra auðkennisleið fyrir þroskahamlaða sem ekki geta sótt um rafræn skilríki. Verið sé að brjóta mannréttindi á þeim þar sem þeir geti ekki nýtt sér ýmsa þjónustu. „Í grunninn er þetta þannig að fólki er neitað um rafræn skilríki vegna þess að það hefur ekki færnina til þess að velja fjögurra stafa pin númer eða skrifa undir til þess að staðfesta að það er að fara nota rafræn skilríki.“ 

Þetta þýðir að fólk hefur ekki aðgang að heimbanka sínum, Heilsuveru, Ísland.is og mörgu fleira. 

Þarf að leysa vandann strax

Sæmundur Ólafsson faðir stúlku með þroskaröskun segir að þetta skapi ýmis vandamál. „Dóttir mín er með dæmigerða einhverfu og þroskahömlun og getur ekki sótt um skilríki sjálf. Og þegar hún varð sextán ára datt hún út  úr Heilsuveru hjá mér. Því miður þá fær hún ekki rafræn skilríki því hún getur ekki skrifað sjálf.“

Jaðarsettur hópur

Meðal annars geti foreldrar ekki leyst út lyf fyrir börnin sín. Hann hefur þurft að fá undanþágu frá apóteki í nokkur skipti. Inga Björk segir að fjölmargir foreldrar séu í sömu stöðu. „Það sem við viljum er að stjórnvöld sýni skilning og áhuga á því að með tækninni eru þau alltaf að jaðarsetja og búa til jaðarhópa meðal fatlaðs fólks. Þetta eru búin að vera þrjú ár þar sem við erum búin að banka á dyrnar og hrópa á eftir og það er ekki enn þá búið að finna lausn á þessu.“

Málinu ekki sýndur áhugi

Inga segir að samtökin hafi leitað aðstoðar hjá ýmsum netöryggisfræðingum og ljóst að það sé hægt að leysa öll þess vandamál. Það þurfi hins vegar að setja tíma og fjármagn til að finna lausn á málinu. „Við höfum bara séð það að útaf því að þetta er þessi jaðarsetti hópur sem er fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir þá er ekki þessi áhugi. Ekki þessi tilfinning að þetta sé raunverulegt neyðarástand útaf því að þetta er þessi hópur.“