Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Endurupptökudómstóll synjaði beiðni Erlu

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Endurupptökudómur hafnaði beiðni Erlu Bolladóttur um að sakfelling hennar vegna rangra sakargifta í Guðmundar- og Geirfinnsmálum skyldi tekin upp á ný. Erla var sakfelld árið 1980 og hefur lengi barist fyrir endurupptöku.

Erla hlaut þriggja ára fangelsisdóm fyrir að bera rangar sakir á fjóra menn. Þeirra á meðal var bróðir hennar. 

Úrskurður endurupptökudómstóls er dagsettur 14. september. Vísir greindi fyrst frá honum.

Endurupptökudómur segir að ekki verði fallist á að sönnunargögn í málinu hafi verið rangt metin og þannig haft áhrif á niðurstöðuna. Dómstóllinn hafnaði þeim rökum Erlu að hún hefði aldrei borið rangar sakir á fjórmenningana. Því til stuðnings er vitnað í ummæli úr vitnaskýrslum.

Lögmaður Erlu sagði að aðferðir lögreglu við yfirheyrslur hefðu verið með þeim hætti að ekki hefði verið hægt að sakfella hana fyrir rangar sakargiftir. Þessu hafnar endurupptökudómstóll. Hann segir að ekki verði ráðið af gögnum málsins að skýrslutökur hafi verið í andstöðu við þáverandi lög. Erla hafi ekki verið talin sakborningur og því hafi ekki verið ástæða til að skipa henni verjanda. Dómstóllinn segir jafnframt að hvergi í gögnum málsins sé að finna upplýsingar sem renni stoðum undir að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi framið eitthvað refsivert til að knýja fram rangar sakargiftir í vitnisburði Erlu.

Grundvallarmunur á forsendum

Í úrskurði endurupptökudómstóls eru bornar saman forsendur endurupptökunefndar fyrir því að samþykkja endurupptöku annarra sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálum og forsendur endurupptökudómstóls fyrir því að hafna beiðni Erlu. Þar er tekið fram að framburður annarra um manndráp hafi verið breytilegur og að flestir hafi dregið framburð sinn til baka. Engum óyggjandi sönnunargögnum hefði verið fyrir að fara og verulegar líkur á að við sönnunarmat í málinu hefði verið ranglega litið framhjá áhrifum óvenju langrar og harðneskjulegrar einangrunar. 

Dómstóllinn segir grundvallarmun á játningum sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálum á glæpum sem óvíst er að hafi verið framdir og yfirlýsingum sem Erla gaf í vitnisburði. Ekki sé hægt að líkja þeim ótta sem Erla segist hafa upplifað í skýrslutökum við aðstæður grunaðra í langri einangrun. Dómstóllinn segir að þágildandi réttarfarslög hafi verið brotin við yfirheyrslur yfir öðrum sakborningum síðar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum en ekkert liggi fyrir um slíkt í yfirheyrslum yfir Erlu.

Sævar Marinó Ciesielski og Kristján Viðar Júlíusson (áður Viðarsson) voru einnig dæmdir fyrir rangar sakargiftir í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Endurupptökunefnd hafnaði endurupptökubeiðni vegna þeirrar sakfellingar.