Djúpar lindir gætu valdið gríðarlegri hlýnun

20.09.2022 - 14:43
FILE - A pump jack extracts crude oil at an oil field near wind turbines in Emlichheim, Germany, March 18, 2022. Most major countries are finding it easier to promise to fight climate change than actually do it. Experts tracking action to reduce carbon emissions say of the major economies only the European Union is close to doing what's necessary to limit global warming to a few more tenths of a degree. (AP Photo/Martin Meissner, File)
Olíuvinnsla og vindorkuver í Þýskalandi. Þjóðverjar hyggjast bregðast við yfirvofandi gasskorti með því að gangsetja minnst tíu kolaorkuver sem búið var að afleggja, þvert á loftslagsmarkmið stjórnvalda þar í landi.  Mynd: AP
Ef mannkyn brennir öllu því eldsneyti sem til er í þeim lindum sem um er vitað myndi það valda meiri hlýnun loftslags en samanlagt hefur orðið frá iðnbyltingu hingað til. Þetta staðhæfir breska hugveitan Carbon Tracker sem birt hefur gagnagrunn um allar kola-, olíu- og gaslindir heims.

Alls myndi sá útblástur nema 3,5 billjón tonna af gróðurhúsalofttegundum. Þetta þýðir að Bandaríkin gætu ein síns liðs brennt nógu miklu eldsneyti til þess að klára allan þann útblásturskvóta sem er eftir þar til hlýnun nemur því 1,5 stigi sem helst er vonast eftir að forðast. Það gæti Rússland einnig.

Til að koma í veg fyrir að loftslag hlýni ekki meira þarf að takmarka útblástur við um 400 til 500 milljarða tonna.

Samanlagt gætu ríki heims reyndar valdið sjöfalt meiri hlýnun en ríkisstjórnir  hafa sammælst um að halda sig innan. Þrátt fyrir það samkomulag hafa ríki heims fæst viljað hætta leit að nýjum eldsneytislindum.

Sérfræðingar eru almennt sammála um að það myndi valda miklum hamförum ef meðalhiti jarðar hækkar um 1,5 stig en staðan yrði töluvert verri ef hlýnunin er sjöfalt meiri. Sem sagt ef gengið er á allar eldsneytislindirnar.

Mark Campanale, sem stofnaði og rekur hugveituna Carbon Tracker, gagnrýnir í samtali við The Guardian að ríki heims veiti enn leyfi fyrir olíu-, kola- og gasleit. Þetta stangist á við yfirlýst og samþykkt markmið í loftslagsmálum.

„Þetta er eins og ef maður fær sér salat í hádegismat en laumast svo í heilan kassa af kleinuhringjum þegar maður kemur aftur á skrifstofuna. Maður getur ekki sagst vera í megrun ef maður treður í sig kleinuhringjum. Þetta er nákvæmlega það sem þessi ríki eru að gera,“ sagði Campanale.

Þórgnýr Einar Albertsson