Ýmsir - Tónlistin úr Abbababb!

Mynd: Abbababb / Kisi

Ýmsir - Tónlistin úr Abbababb!

19.09.2022 - 15:15

Höfundar

Söngva- og dansamyndin Abbababb! var frumsýnd í síðustu viku. Hún er byggð á samnefndri barna hljómplötu Dr. Gunna og vina hans sem gerði allt vitlaust rétt fyrir aldamót. Í þessari nýju útgáfu, í leikstjórn Nönnu Kristínar Magnúsdóttur, eru það Hanna og vinir hennar í hljómsveitinni Rauðu Hauskúpunni sem lenda í ýmsum ævintýrum.

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, Todmobilingur, ber hitann og þungann af tónlistinni í kvikmyndinni Abbababb! og endurútsetur lög Dr. Gunna og vina auk þess að spila á flest hljóðfæri. Þorvaldur fær til sín góða gesti við flutninginn, sem eru aðalleikararnir í myndinni, þau Ísabella Jónatansdóttir, Óttar Kjerulf Þorvarðarson, Vilhjálmur Árni Sigurðsson, Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Vala Snædal Sigurðardóttir, Jón Arnór Pétursson og Daði Víðisson auk þess sem Jóhanna Guðrún, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Salka Sól koma við sögu.

Plata vikunnar á Rás 2 að þessu sinni er platan með tónlistinni úr Abbababb! með ýmsum flytjendum. Hún verður flutt að loknum 10 fréttum í kvöld með kynningum Þorvalds Bjarna og Nönnu Kristínar.