Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Einstaklega hátíðleg stund“

19.09.2022 - 15:46
Mynd: Ragnar Santos / RÚV
Guðni Th. Jóhannesson forseti segir að útför Elísabetar Bretadrottningar sé söguleg stund. Þarna fari þjóðhöfðingi sem hafi tengt saman kynslóðirnar frá því hún tók við völdum árið 1952.

„Þetta var, eins og gefur að skilja, einstaklega hátíðleg stund,“ segir Guðni í viðtali sem Ólöf Ragnarsdóttir fréttamaður tók við hann skömmu eftir að athöfninni í Westminster Abbey lauk. „Útförin var hlaðin virðingu og maður var auðvitað snortinn. Tónlistin sérlega falleg, uppáhaldssálmar drottningar, orgelleikur, kórsöngur, lúðrablástur. Öll var þessi athöfn merk á alla lund og að sjálfsögðu söguleg líka.“

Guðni segir að Elísabet hafi tengt saman kynslóðir. „Hún gegndi herskyldu, tók þátt í vörnum síns heimalands í seinni heimsstyrjöldinni og kveður okkur nú árið 2022. Í þessari athöfn mættust löngu liðinn tími og samtíminn. Svo horfum við fram á veg og hugsum með okkur hvernig framhaldið verði. Hitt vitum við að Elísabet Bretadrottning stóð sína vakt og gegndi sínum skyldum af samviskusemi og virðingu fyrir land sitt og þjóð.“

Forsetinn segir að það hafi verið sterk stund þegar viðstaddir sungu þjóðsöng Breta. Nú var sungið God save the king, ekki God save the queen. „Það var vissulega mjög áhrifarík stund.“

„Ég var að upplifa sögulega stund,“ segir Guðni og vísar til 70 ára valdatíðar drottningar. „Þar að auki er það nú svo að þegar þjóðhöfðingi fellur frá sem tók við völdum árið 1952, sama ár og annar forseti Íslands tók við sínu embætti, þá hugsar maður um hinn þunga straum sögunnar.

„Við sjáum hvað tíminn leiðir í ljós,“ segir Guðni aðspurður hvort samveldið lifi andlát drottningar af. Samveldið hafi þróast og breyst í tímans rás og geri það örugglega áfram. Eitt sinn hafi Bretland verið heimsveldi, nú sé samveldi og tíminn leiði í ljós hvað verður.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV