Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Skjólstæðingum Frú Ragnheiðar á Akureyri hefur fjölgað

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Skjólstæðingum Frú Ragnheiðar á Akureyri hefur fjölgað talsvert á milli ára. Hópstjóri telur það ekki stafa af aukinni notkun á vímuefnum í æð, heldur séu fleiri farnir að leita í þjónustuna.

Frú Ragnheiður er skaðaminnkandi úrræði Rauða krossins fyrir fólk sem notar vímuefni í æð. Heimsóknir í þjónustuna á Akureyri fyrstu átta mánuði ársins eru orðnar 262, sem eru fleiri heimsóknir en allt árið 2021, þegar þær voru 195. Einstaklingarnir að baki heimsóknunum eru orðnir 32 á þessu ári, á móti 23 yfir allt árið í fyrra.

Hjá Frú Ragnheiði er fólki sem notar vímuefni í æð séð fyrir grunn-heilbrigðisþjónustu, nálaskiptaþjónustu og sálrænum stuðningi.

Berglind Júlíusdóttir, hópstjóri og starfsmaður í hlutastarfi hjá Frú Ragnheiði á Akureyri, segir að fjölgunin stafi ekki af því að fleiri séu farnir að nota vímuefni í æð.

„Nú er verkefnið búið að vera í fjögur og hálft ár, þannig að bæði held ég að fólk sé farið að treysta okkur betur og fólk er að koma oftar til okkar.“

Hún telur að það hafi líka áhrif að Frú Ragnheiður sé farin að dreifa lyfinu Naloxone, sem er móteitur við ópíóíðum og notað til að draga úr áhrifum ofskömmtunar. Lyfið er í formi nefúða sem skjólstæðingar taka með sér heim.

„Þá geta þau brugðist við á meðan þau bíða eftir frekari aðstoð.“

Frú Ragnheiður hefur hafið samstarf við veitingahús á Akureyri, sem gefur þeim heitan mat í bökkum sem síðan er dreift til skjólstæðinga. Berglind segir það hafa gefist vel. 

„Og við finnum það að fólk á við mikinn næringarvanda að stríða.“

Sjálfboðaliðar Frú Ragnheiðar á Akureyri standa vaktina þrisvar í viku, á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum, frá klukkan átta til tíu á kvöldin. Berglind segir það hafa komið til tals að bæta við vöktum, en tíminn muni leiða það í ljós. Aukin eftirspurn gefi tilefni til að auka við þjónustuna.