Grænlandsjökull hopaði 26. árið í röð

Mynd með færslu
 Mynd: De Nationale Geologiske Undersø - KNR
Grænlandsjökull minnkaði milli ára, 26. árið í röð. Mælingar Jarðfræðirannsóknastofnunar Danmerkur og Grænlands (GEUS) staðfesta þetta og segja vísindamenn stofnunarinnar veðurfar annars staðar í heiminum mögulega hafa áhrif á bráðnun jökulsins.

Jarð- og jöklafræðingar GEUS mæla Grænlandsjökul á alla kanta 1. september á ári hverju, þegar bráðnun er að ljúka og íssöfnun fer í hönd. Mælingarnar leiða í ljós að hann hefur minnkað á hverju ári síðan 1997 og í fréttatilkynningu stofnunarinnar segir að það hafi ekkert breyst; jökullinn hefur tapað um það bil 84 milljörðum tonna af ís frá því í fyrra.

En þótt þetta séu heil ósköp af ís, þá er þetta vel undir meðallagi, segir í frétt grænlenska ríkisútvarpsins, KNR. Síðast bráðnuðu til dæmis 172 milljarðar tonna af ís á milli mælinga og metárið 2011 - 2012 rýrnaði Grænlandsjökull um heila 460 milljarða ístonna.

Fylgni milli hita í Evrópu og kulda á Grænlandi

Í tilkynningu GEUS segir jöklafræðingurinn Andreas Ahlstrøm ekki ólíklegt að tengsl séu á milli þessarar hlutfallslega litlu bráðnunar jökulsins síðasta árið og mikilla hita á meginlandi Evrópu í sumar.

„Við sjáum það oft, að miklar hitabylgjur í Evrópu hafa oft hið gagnstæða í för með sér á Grænlandi, þar sem veður verður oft kaldara en venjulega á sama tíma. Og það getur valdið því að bráðnun minnkar,“ segir Ahlstrøm.

18 milljarðar tonna á þremur dögum og rigning á toppnum

18 af þeim 84 milljörðum tonna sem bráðnuðu í ár fóru á þremur dögum um miðjan júlí þegar heitur loftmassi frá Kanada barst yfir Norður-Grænland. Og í ágúst gerðist það í fyrsta skipti frá því að veðurstöð var komið upp á hábungu jökulsins árið 1987, í 3.216 metra hæð, að þar mældist rigning.