Vill afsökunarbeiðni og neitar að funda með flokknum

17.09.2022 - 15:33
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd/Flokkur fólksins - RÚV
Ekkert varð af boðaðri heimsókn Flokks fólksins til Akureyrar um helgina. Karlar sem sátu á lista flokksins í sveitarstjórnarkosningum á Akureyri í vor vilja að beðist sé afsökunar á ásökunum á hendur þeim.

Inga Sæland, formaður flokksins, boðaði heimsókn norður um helgina í ljósi ásakana þriggja kvenna á hendur karlmanna innan flokksins á Akureyri. Konurnar sögðust meðal annars hafa verið lítilsvirtar og hunsaðar af ónefndri karlaforystu og aðstoðarmönnum þeirra. 

Jón Hjaltason sagnfræðingur skipaði þriðja sæti á lista flokksins í vor. 

„Núna boðar hún komu sína norður og kemur svo ekki en býður okkur aftur, eða boðar okkur, með örskömmum fyrirvara að koma til fundar við hana og þau í Reykjavík núna á eftir. Því boði hef ég hafnað.“ 

Enginn vafi sé á að ásakanirnar beinist gegn sér og Brynjólfi Ingvarssyni oddvita flokksins. Jón segist hafa óskað eftir að koma á fund flokksins þegar ásakanirnar komu fram en verið hafnað. 

„Þá komst ég að þeirri niðurstöðu að það væri ekki ræðandi við þetta fólk fyrr en það hefði dregið til baka allar ásakanir á hendur okkur opinberlega og beðist afsökunar.

Og þú munt ekki hafa samskipti við þau þangað til það gerist?

„Já.“  

Og hafið þið fengið einhver viðbrögð við þessu?

„Nei, það er bara þögnin enn þá, þannig að við bíðum.“

Þetta séu sameiginlegar kröfur þeirra karla sem skipuðu lista flokksins í vor. 

Inga Sæland sagði í skriflegu skilaboðum til fréttastofu að flokkurinn muni funda í dag, þótt að Jón og aðrir af lista flokksins á Akureyri hafi ekki þáð boðið.