Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vilja draga umsókn Íslands um aðild að ESB til baka

17.09.2022 - 15:08
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Flokkur Fólksins hefur lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Flutningsmenn eru allir þingmenn flokksins. Þessi þingsályktunartillaga var einnig lögð fram á síðustu þremur löggjafarþingum.

Allir þingmenn Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata lögðu fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við Evrópusambandið í vikunni. Vilja þingmennirnir að atkvæðagreiðslan fari fram fyrir árslok 2023.

Guðmundur Ingi Kristinsson, formaður þingflokks Flokks fólksins, segir meirihluta þjóðarinnar ekki vilja ganga í Evrópusambandið og sá hópur hafi aukist eftir útgöngu Breta fyrir nokkrum árum.

„Þetta verður pottþétt rætt í þinginu en eins og með flestöll mál þá fara þau í nefnd og daga þar uppi, því miður. En maður veit aldrei, maður verður bara að vera bjartsýnn og vona að það við tökum þetta inn í þingið og ræðum þetta þar og klárum það,“ segir Guðmundur. Hann telur meirihluta fyrir því í þinginu að hætta alveg aðildarumsókninni. 

ingibjorgsg's picture
Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir
Fréttastofa RÚV