Vél Play þurfti að lenda í Sæludal vegna flugdólgs

17.09.2022 - 14:32
Mynd með færslu
 Mynd: Play
Flugvél Play, sem var á leiðinni frá Keflavík til Baltimore í Bandaríkjunum, þurfti að lenda í Sæludal við Gæsaflóa á Labrador eftir að bandarískur farþegi um borð sýndi af sér ógnandi hegðun. Hann kemur fyrir dómara í dag.

Nadine Guðrún Yaghi, upplýsingafulltrúi Play, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu en segir að enginn hafi slasast.  Hún segir að flugvélin hafi ekki þurft að stoppa lengi.

Þetta hafi verið farþegi sem hafi látið ófriðlega um borð. Þegar ekkert gekk að tjónka við hann og hann fór að sýna af sér ógnandi hegðun var ákveðið að lenda í Sæludal þar sem konunglega kanadíska riddaralögreglan kom um borð og handtók manninn.

Nadine segir að áhöfnin hafi meðal annars þurft að grípa til þess ráðs að færa farþega til.

Í tilkynningu á vef kanadísku riddaralögreglunnar í Sæludal segir að umræddur farþegi verði kærður fyrir líkamsárás og fyrir að verða til þess að flugvélin þurfti að nauðlenda. Þá verður hann einnig kærður fyrir brot á flugverndarlögum fyrir að ógna öryggi farþega og flugvélarinnar.

Nadine reiknar með að Play leggi einnig fram kæru á hendur manninum. 

Talsmaður kanadísku riddaralögreglunnar segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að áhöfnin hafi þegar gefið skýrslu. Og að sá úr áhöfninni sem farþeginn veittist að hafi ekki slasast.

Leiðrétt: Ranglega var farið með nafn kanadísku lögreglunnar. Hún er kanadíska riddaralögreglan.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV