Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Nenna ekki að tala íslensku við kröfuharða Íslendinga

17.09.2022 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - Rúv
Innflytjendur vilja margir hverjir ekki tala íslensku lengur þar sem þeir telja sig mæta neikvæðu viðmóti hjá Íslendingum. Óformleg samtök innflytjenda hér á landi segja að margir reyni að læra málið og æfa sig, en þeir sem hafi íslensku að móðurmáli þoli ekki að heyra bjagaða íslensku. 

Samtökin sendu opið bréf í gær þar sem áhyggjur þeirra af stöðu innflytjenda hér á landi voru tíundaðar. Þeir kalla eftir svipuðu fyrirkomulagi á veitingu ríkisborgararéttar hér og á hinum Norðurlöndunum. Þá er óskað eftir því að innflytjendum verði gert kleift að sækja sjálfir um kennitölu í stað þess að vinnuveitandi geri það fyrir þeirra hönd. Í þriðja lagi nefna samtökin stöðu tungumálakennslu. Agnieszka Sokolowska er meðlimur samtakanna - hún kann íslensku en kaus að tala ensku til þess að senda ákveðin skilaboð.

„Skilaboðin eru þau að við innflytjendur, sem erum að læra íslensku, erum að gera okkar besta. Við erum að reyna en það er aldrei neitt nógu gott,“ segir hún.

Agnieszka segir að íslensk stjórvöld geti fjárfest skynsamlega með því að veita auknu fé til tungumálakennslu innflytjenda. Þeir sem vilja á annað borð læra íslensku geta hvergi farið og nýtt þá kunnáttu annars staðar í heiminum og því eykur bætt tungumálakennsla líkurnar á því að fólk setjst hér að til langframa.

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV