Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ungverjaland Viktors Orbáns ekki fullgilt lýðræðisríki

epa09986445 Hungary's Prime Minister Viktor Orban at the first day of a Special European Summit on Ukraine at the European Council, in Brussels, Belgium, 30 May 2022.  EPA-EFE/OLIVIER HOSLET
 Mynd: EPA-EFE - EPa-EFE
Ungverjaland er ekki lengur fullgilt lýðræðisríki, heldur ríkir þar alræðisstjórn í skjóli kjörinna fulltrúa. Þetta er inntakið í ályktun sem samþykkt var á Evrópuþinginu í Strassburg. Rúmlega 80 prósent þeirra sem þátt tóku í atkvæðagreiðslunni samþykktu ályktunina, sem fordæmir harðlega stjórnarhætti forsætisráðherrans Viktors Orbáns og ríkisstjórnar hans.

Í ályktuninni segir að í Ungverjalandi fari nú „blendingsstjórn alræðis og kjörræðis“ með öll völd og rakið hve mjög hefur verið grafið undan lýðræði, grundvallarmannréttindum og réttarríkinu í í Ungverjalandi á langri valdatíð Orbáns.

Einnig er bent er á mikla „hættu á fyrirgreiðslupólitík, mismunun og frændhygli á æðstu stöðum í opinberri stjórnsýslu“ sem aftur eykur hættuna á misferli með almannafé, jafn ungverskt skattfé sem evrópska styrki.

Táknræn yfirlýsing til að þrýsta á leiðtoga og framkvæmdastjórn

Ályktunin er eingöngu táknræn og hefur engar beinar afleiðingar fyrir Ungverja eða stöðu þeirra í Evrópusambandinu. Hún er þó til þess fallin að auka enn þrýsting á framkvæmdastjórn og leiðtogaráð sambandsins um að standa föst á því að veita stjórnvöldum í Búdapest ekki aðgang að um 650 milljarða króna uppbyggingarstyrk eftir heimsfaraldur kórónuveirunnar að óbreyttu. Sá styrkur hefur verið í frosti í rúmt ár vegna áhyggja af spillingu í ungverska stjórnkerfinu.

Einnig stendur til að skerða nær 3.400 milljarða króna framlag úr innviða- og jöfnunarsjóði sambandsins til Ungverjalands um 70 prósent. Búist er við að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins leggi fram formlega tillögu þar að lútandi á sunnudag, um leið og hún leggur fram málamiðlunartillögu sem felur í sér minni skerðingu gegn því að Ungverjar taki til í eigin ranni á ýmsum sviðum.

Ungverjar leita nú allra leiða til að losa um COVID-styrkinn og hindra eða minnka niðurskurðinn á framlaginu úr þróunar- og jöfnunarsjóðnum.