Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Tónlistarskóli Húsavíkur eykur fjölbreytileika

16.09.2022 - 18:07
Mynd með færslu
 Mynd: Ouicoude - Wikimedia
Tónlistarskóli Húsavíkur býður nú upp á tónlistarnám fyrir fólk með sértækar stuðningsþarfir. Tónlistarskólastjórinn vill með þessu opna dyr skólans fyrir öllum og að þessi hópur njóti sömu tækifæra og aðrir.

Gítar, harmonikka, trommur, söngur og píanó

Námið hófst í síðustu viku og hefur farið vel af stað, að sögn Guðna Bragasonar, skólastjóra. Nú þegar eru sextán einstaklingar skráðir í tónlistarnám af ýmsu tagi. „Þau eru að læra á gítar og rafmagnsgítar, harmonikku, trommur, nokkrir í söng og píanó svo eitthvað sé nefnt.“

Og hvernig hefur þá hugmyndinni verið tekið? 

„Mjög vel, það er bara mikil ánægja og jákvæðni og bara þakklæti fyrst og fremst fyrir að opna skólann fyrir þessa einstaklinga.“

Fara hoppandi kát og hress úr tíma í hvert skipti

Um er að ræða samstarfsverkefni tónlistarskólans, Miðjunnar hæfingar, Þekkingarnets Þingeyinga og félagsþjónustunnar. Hugmyndin er fengin frá finnskum tónlistarskóla sem sérstaklega er ætlaður fólki með sértækar stuðningsþarfir. Guðni segir að þó ekki sé liðið lengra á námið sjái hann strax mun á nemendum. „Það er gríðarlegur spenningur að koma alltaf og hér fara þau alveg hoppandi kát og hress frá okkur þannig að maður sér að þetta er að gefa þeim töluvert.“

Hann segir hugmyndina í stöðugri þróun og miðað við þessa góðu byrjun séu framtíðarhorfur námsins bjartar.