Sprengdu gamla sprengju í Hlíðarfjalli

16.09.2022 - 15:53
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjar Karl Óttarson - RÚV
Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar sprengdi í gær sprengju sem fannst í Hlíðarfjalli. Spengjan var skammt norðan við síðasvæðið, á stað sem setulið breski hersins nýtti til æfinga. Brynjar Karl Óttarsson, kennari á Akureyri, fann sprengjuna.

Sprengdum sprengjuna í tætlur

Brynjar Karl Óttarsson, kennari á Akureyri, fann sprengjuna fyrir nokkru síðan og lét yfirvöld vita. „Ég fann þessa sprengju síðastliðið haust og mig grunaði strax að um sprengju væri að ræða. Ég beið nú aðeins með þetta því það var að koma vetur og svo lét ég þá vita í sumar af þessu og þeir komu núna í gær. Við fórum þarna upp eftir og sprengdum sprengjuna í tætlur,“ segir Brynjar. 

Hvernig fór þetta fram, var þetta jafn spennandi og það hljómar, að fara upp í fjall og sprengja sprengju?

„Já, það var það sko. Við höfum nú verið að finna sprengjuleifar og þeir hafa áður komið og fiffað eitthvað við þetta og eytt þessu en nú kom í ljós að þetta var ósprungin sprengja.“

Varð ekkert hræddur

Hann segist ekki hafa verið hræddur þegar sprengjan sprakk. „Nei, ég var ekkert hræddur en mér dauðbrá. Þa var svo gott veður og mikil stilla uppi í fjalli og svo náttúrulega bergmálaði þetta svo í fjöllunum þarna þannig að þetta var bara eins og í Beirút í gamla daga sko.“

Heldurðu að það séu líkur á að það séu fleiri virkar sprengjur þarna?

„Sko, það er alveg möguleiki því þetta er þekkt æfingasvæði hersins. En þetta er úr alfaraleið, þetta er töluvert frá skíðasvæðinu og norðan við Mannshrygg, fyrir þá sem þekkja til þar. En engu að síður, fólk er náttúrlega að fara út um hvippinn og hvappinn þannig að það er alltaf hætta sem stafar að þessu ef þetta er úti í náttúrunni.“

Brynjar sagði frá sprengjunni á Facebook