Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Segist viss um að Úkraína gangi í Evrópusambandið

Mynd með færslu
 Mynd: president.gov.ua
Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, segir Úkraínu vilja verða hluta af innri markaði Evrópusambandsins áður en ákvörðun verður tekin um það hvort ríkið fái formlega inngöngu í sambandið. Hann segist viss um að Úkraína hljóti inngöngu í sambandið og að það verði einn af mikilvægari sigrum landsins. 

Þetta kom fram í máli forsetans á blaðamannafundi í Kænugarði síðdegis með Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. 
Von der Leyen er í Úkraínu til þess að ræða áform ríkisins um að ganga í Evrópusambandið. Úkraína sótti um inngöngu fimm dögum eftir að Rússar réðust inn í landið. Þetta er þriðja heimsókn Ursulu von der Leyen til Úkraínu frá upphafi innrásarinnar. Zelensky þakkaði henni á blaðamannafundinum fyrir stuðninginn við Úkraínu. 
Zelensky og von der Leyen ræddu meðal annars um árásir Rússa á orkuver í Úkraínu og orkukrísuna sem ríkir nú í Evrópu eftir að Rússar drógu úr útflutningi á orku til Evrópuríkja. 
„Við erum þakklát fyrir að hafa sameinast evrópskum orkuveitum,“ sagði Úkraínuforseti. „Það kemur sér vel fyrir alla; ríki Evrópu geta fengið ódýrt rafmagn frá Úkraínu og við fáum á móti tekjur til að greiða laun og félagslega styrki á þessum erfiðu tímum.“