Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hungurdauði vofir yfir hálfri milljón sómalskra barna

FILE - Fatuma Abdi Aliyow sits by the graves of her two sons who died of malnutrition-related diseases last week, at a camp for the displaced on the outskirts of Mogadishu, Somalia, Sept. 3, 2022. Millions of people in the Horn of Africa region are going hungry because of drought, and thousands have died, with Somalia especially hard hit. (AP Photo/Farah Abdi Warsameh, File)
Fatuma Abdi Aliyov situr við grafir tveggja ungra sona sinna, sem dóu úr vannæringu og fylgikvillum hennar í síðustu viku í neyðarbúðum fyrir vegalaust fólk í útjaðri sómölsku höfuðborgarinnar Mogadishu. Myndin er tekin 3. september 2022.  Mynd: AP
Hungurdauði vofir yfir ríflega hálfri milljón sómalskra barna ef ekki verður brugðist við hið snarasta, að sögn talsmanns Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, Unicef. „Samstarfsaðilar okkar í Sómalíu hafa upplýst okkur um að margar neyðarhjálparstöðvar þeirra séu þegar yfirfullar og að meðhöndla þurfi mörg veik börn, lífshættulega veik, þar sem þau liggja á gólfinu,“ segir talsmaðurinn James Elder.

Ríflega 513.500 sómölsk börn á aldrinum sex mánaða til fimm ára eru í bráðri lífshættu vegna alvarlegs næringarskorts. Mjög vannærð börn eiga ekki aðeins á hættu að deyja úr hungri, heldur líka úr banvænum magakveisum og mislingum, sem leggjast mun þyngra á þessi börn en þau sem vel eru haldin.

Skæðustu þurrkar sem orðið hafa í 40 ár

Á aðra milljón manna hefur hrakist á vergang í Sómalíu og nágrannaríkjum á Horni Afríku, þar sem regntímabilið hefur ekki látið á sér kræla síðustu þrjú ár. Það hefur valdið verstu þurrkum sem orðið hafa í þessum heimshluta í 40 ár og sérfræðingar Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna áætla að hungur vofi yfir á þriðja tug milljóna manna vegna þessa. 

 

Innrás Rússa í Úkraínu eykur neyð fólks í Afríku 

Ákall um alþjóðlega fjárhagsaðstoð til að fjármagna hjálparstarf á Horni Afríku hefur litlu skilað eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.

Innrásin hefur annars vegar orðið til þess að fjölmörg ríki beina fjárhagsstuðningi sínum einkum til Úkraínu og hins vegar valdið miklum truflunum á kornútflutningi, sem aftur veldur hvorutveggja skorti og verðhækkunum á korni, þótt ástandið hafi skánað lítið eitt eftir að samningar tókust um kornútflutning um Svartahaf.

Allt bitnar þetta illa á nauðstöddu fólki á Horni Afríku og víðar.